Tæplega 30% 18 ára Íslendinga og eldri eru hlynnt inngöngu Íslands í ESB, en næstum því 42% andvíg. Þetta er svipuð niðurstaða og fyrir ári en þá voru 31% hlynnt og 39% andvíg.
Þegar að niðurstöður eru greindar eftir helstu lýðfræðibreytum má sjá að fólk á höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi og Vestfjörðum er hlynntara en fólk búsett annars staðar á landinu og stuðningur við inngöngu eykst með lengri skólagöngu.
Eins og búast má við er mikill munur á afstöðu fólks til inngöngu Íslands í ESB eftir stjórnmálaskoðun. Þannig er meirihluti kjósenda Viðreisnar (76,9%), Samfylkingarinnar (62,4%) og Pírata (58,5%) hlynntur inngöngu. Á hinn bóginn er meirihluti Miðflokksins (75,8%), Sjálfstæðisflokksins (72,2%), Flokks fólksins (70,8%) og Framsóknarflokksins (66,7%) andvígur inngöngunni. Fleiri kjósendur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (33,8%) og Sósíalistaflokksins (41,0%) eru hlynntir inngöngu heldur en eru andvígir, en u.þ.b. fjórðungur kjósenda hvors flokks er andvígur.
Líkt og með afstöðuna til inngöngu í ESB telja höfuðborgarbúar fremur en landsbyggðarbúar að hagstæður samningur næðist og þeir sem hafa lengri skólagöngu eru bjartsýnni á slíkan samning en aðrir. Þá er mat á slíkum samningi mjög ólíkt eftir stjórnmálaskoðun, þar sem flestir kjósendur Viðreisnar, Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri-grænna og Sósíalista telja að hagstæður samningur ætti að nást, en flestir kjósendur Miðflokksins, Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Framsóknarflokksins telja að ekki muni nást hagstæður samningur.
Svarendur könnunar voru 866 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 21. janúar til 1. febrúar 2021.
Nánari upplýsingar má finna hjá Þóru Ásgeirsdóttur í síma 896-4427 eða hjá thora@maskina.is.