Með reglulegu millibili kemur upp heit umræða um Uber í samfélaginu og hvort leyfa eigi slíka akstursþjónustu eða ekki. Sjónarmiðin í umræðunni eru misjöfn og því lék Maskínu forvitni á að vita raunverulega afstöðu þjóðarinnar til þessa.
Rúmlega helmingur hefur aldrei notað Uber erlendis
Slétt 55% svarenda sögðust aldrei hafa notað Uber eða aðra sambærilega akstursþjónustu á ferðum sínum erlendis. Um 30% hefur notað þjónustu Uber stundum eða sjaldan og tæplega 15% hafa notað slíka aksturþjónustu oft. Það kemur skýrt fram í niðurstöðunum að Uber nýtur meiri hylli meðal yngri hópa og næstum fjórðungur svarenda á aldrinum 30–39 ára nota Uber oft á ferðum sínum erlendis. Mjög dregur úr notkuninni með hækkandi aldri og af þeim sem eru 60 ára eða eldri hafði 81% aldrei notað Uber eða annað sambærilegt erlendis.
Lítill hluti andvígur Uber á Íslandi
Aðspurður um hvort heimila skyldi akstursþjónustu á borð við Uber hérlendis er fámennur hópur andvígur eða ríflega 17% svarenda. Rúmlega helmingur er hlynntur því að Íslendingar geti nýtt sér þjónustu Uber hérlendis og tæplega 30% valdi svarkostinn í meðallagi. Andstöðuna er helst að sjá í elsta hópi svarenda (60 ára og eldri) en þó eru rúmlega 28% þeirra hlynntur því að Uber verði heimiluð starfsemi á Íslandi. Yngra fólk er ennþá jákvæðara gagnvart því að fá Uber til landsins og eru um 65% þeirra sem eru yngri en 40 ára hlynnt því.
Þeir sem þekkja Uber erlendis frá hlynntastir
Af þeim sem nota Uber eða annað sambærilegt oft erlendis eru um 92% hlynnt því að Uber eða önnur sambærileg aksturþjónusta verði heimiluð hér á landi. Að sama skapi er stærstur hluti andvígra á meðal þeirra sem aldrei hafa nýtt sér Uber eða annað sambærilegt erlendis eða rúmlega 27%.
Ítarlegri niðurstöðu má finn í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.016, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 26. til 31. október 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.