Stuðningur Íslendinga við alþjóðlegar hjálparstofnanir

Heim / Uncategorized @is / Stuðningur Íslendinga við alþjóðlegar hjálparstofnanir

Þann 9. janúar síðastliðinn var morgunverðarfundur ÍMARK haldinn í Hörpu undir yfirskriftinni ÍMARK spáin 2014-2015. Á fundinum kynnti Þorlákur Karlsson, rannsóknarstjóri Maskínu, niðurstöður rannsóknarinnar „Hvernig hæfa samfélagsgildi Íslendinga breyttum heimi?“ og bar þær saman við niðurstöður hliðstæðrar rannsóknar sem gerð var meðal ungmenna í Bandaríkjunum.

Í fyrrnefndri rannsókn voru þátttakendur meðal annars spurðir: Hversu líklegt eða ólíklegt er að þú munir gefa peninga til alþjóðlegrar hjálparstofnunar á næstu 12 mánuðum? Nokkur munur er á svörum íslenskra og bandarískra ungmenna þar sem þau íslensku eru mun líklegri til að gefa eða hafa gefið peninga til alþjóðlegra hjálparstofnana. Þá er sömuleiðis nokkur munur á hlutfalli bandarískra og íslenskra ungmenna sem segjast ekki vita hvort þau séu líkleg til að gefa pening til alþjóðlegra hjálparstofnana þar sem þau bandarísku eru hlutfallslega nokkuð fleiri.

Rúmlega sjö af hverjum 10 hafa gefið eða telja líklegt að þeir gefi

Á milli 72-73% íslenskra svarenda telja líklegt að þau muni gefa peninga til alþjóðlegra hjálparstofnana á næstu 12 mánuðum (eða hafa gert það). Þá má sjá að yngsti hópurinn er ólíklegastur til að hafa gefið eða vilja gefa peninga til alþjóðlegra hjálparstofnana en að sama skapi er hópurinn 35-44 ára líklegastur til að gera slíkt.

Svör bandarísku ungmennanna eru niðurstöður rannsóknarinnar „Monitoring the future“ fyrir árið 2013 en hún er framkvæmd árlega af Institute of Social Research, hjá The University of Michigan. Sjö spurningar voru valdar úr rannsókninni til að leggja fyrir slembiúrtak karla og kvenna úr þjóðskrá á aldrinum 16-75 ára af öllu landinu í desember 2013. Alls voru 727 svarendur.

Aðrar fréttir