STJÓRNARFLOKKARNIR NJÓTA STUÐNINGS RÖSKLEGA 31% ÞJÓÐARINNAR

Heim / Fréttir / STJÓRNARFLOKKARNIR NJÓTA STUÐNINGS RÖSKLEGA 31% ÞJÓÐARINNAR

Maskína birtir nú í fyrsta sinn fylgistölur flokkanna, á fyrsta heila degi nýrrar ríkisstjórnar. Píratar eru stærsti flokkurinn, rösklega 34% myndu kjósa þá ef kosningar færu fram nú. Sjálfstæðisflokkurinn fengi ríflega 21% atkvæða, Vinstrihreyfingin – grænt framboð 20%, Framsóknarflokkurinn fengi 9-10%, Samfylkingin rösklega 7% og Björt framtíð rösklega 5%. Aðrir flokkar fengju minna. Rúmlega 8% svarenda myndu ekki kjósa, skila auðu, neita að svara eða segjast ekki vita hvaða flokk þeir myndu kjósa, sem er óvenju lágt.

Mikill meirihluti fylgdist með atburðum síðustu daga

Greinilegt er að tíðindin í samfélaginu síðustu daga hafa vakið áhuga hjá þjóðinni, því slétt 57% segjast hafa fylgst mjög mikið með atburðum í íslenskum stjórnmálum, ríflega 86% hafa fylgst vel með (fremur og mjög mikið), en 2-3% hafa fylgst lítið með.

Austfirðingar, Vestlendingar og Vestfirðingar hafa fylgst heldur minna með en aðrir Íslendingar. Áhugi á atburðunum eykst með meiri menntun, en rétt um 80% þeirra sem hafa stysta skólagöngu hafa fylgst mikið með. Kjósendur stjórnarflokkanna hafa fylgst minna með en kjósendur stjórnarandstöðuflokkann, 79-84% stjórnarflokkanna en 91-93% kjósenda stjórnarandstöðuflokkanna.

Meirihluti vill kosningar í vor

Rúmur helmingur kjósenda vill að kosið verði til Alþingis í vor, ríflega fjórðungur í haust og rösklega 23% vilja kjósa vorið 2017.

Hærra hlutfall kvenna en karla vill kosningar nú í vor, yngra fólk fremur en eldra og meirihluti Reykvíkinga, en 38-48% annarra landsmanna. Eftir því sem tekjur lækka þeim mun meira er krafa um kosningar í vor. Á milli 62% og 81% kjósenda stjórnarandstöðuflokkanna vilja kosningar í vor en 3-4% kjósenda stjórnarflokkanna, en þeir vilja helst kosningar að ári. Eftir því sem áhugi á atburðum síðustu daga eykst þeim mun líklegra er fólk til að vilja kosningar strax í vor.

Svarendur voru 2438, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er panelhópur fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 7.-8.apríl 2016.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir