Miklar sviptingar eru í fylgi flokkanna í síðustu fylgismælingu Maskínu ársins 2022 og augljóst að innkoma Kristrúnar Frostadóttur í stól formanns Samfylkingarinnar hefur þar sitt að segja en fylgi hennar aukist þessi misseri.
Fylgi Samfylkingarinnar hefur tvöfaldast frá kosningum
Mikill stígandi hefur verið í fylgi Samfylkingarinnar allt frá því að það mældist rúmlega 8% í júlí 2022 en stendur núna í um 20%. Þetta eru um 10 prósentustigum meira fylgi en Samfylkingin hlaut í síðustu Alþingikosningum en þá var fylgið rétt um 10%. Samkvæmt þessum tölum er Samfylkingin stærsti flokkurinn á landsvísu ásamt Sjálfstæðisflokki sem einnig er með 20% fylgi samkvæmt þessari könnun. Ólíkt Samfylkingunni hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins verið nokkuð stöugt undanfarið ár í Maskínukönnunum en flokkurinn hefur verið með frá tæplega 19% og upp í tæplega 25% fylgi á því tímabili. Það er sambærilegt því fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk í síðustu kosningum eða um 24-25%.
Framsókn gefur eftir
Framsóknarflokkurinn hefur gefið jafnt og þétt eftir síðan í ágúst þegar flokkurinn mældist með rétt tæplega 20% fylgi, samkvæmt þessari könnun er flokkurinn með um 12% fylgi sem er 5 prósentustigum minna en kjörfylgi Framsóknar var í síðustu Alþingiskosningum. Píratar eru á svipuðu reki og Framsókn með 12-13% fylgi en það er mun meira en flokkurinn fékk upp úr kjörkössunum í síðustu kosningum þegar Píratar hlutu 8-9% fylgi.
Samanlagt tap ríkisstjórnarflokkanna töluvert
Þegar samanlagt fylgi ríkisstjórnarinnar er skoðað frá kosningum sést að tapið nemur rúmlega 14 prósentustigum en núna er samalagt fylgi þessara þriggja flokka 40% en var rúmlega 54% eftir kosningar.
9 flokkar með fulltrúa á þingi samkvæmt þessum tölum
Samkvæmt Maskínukönnun desembermánaðar er dreifing fylgisins ansi mikil en fjórir flokkar eru með yfir 10% það eru Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur, Píratar og Framsókn en fimm flokkar mælast á bilinu 6-8% sem þýðir að allir 9 flokkarnir myndu ná manni á þing ef þetta yrðu úrslit kosninga.
Ítarlegri niðurstöðu er að finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.703, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 16. til 28. desember 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.