Ríkisstjórnin heldur naumlega í nýrri Maskínukönnun

Heim / Fréttir / Ríkisstjórnin heldur naumlega í nýrri Maskínukönnun

Nú, daginn fyrir kjördag, birtir Maskína sína síðustu könnun á fylgi flokkanna. Könnunin var lögð fyrir 22.–24. september og svöruðu samtals 5.547 því hvaða flokk þau myndu styðja á laugardag.

Niðurstöðurnar sýna að ríkisstjórnin heldur velli með 32 mönnum, minnsta mögulega meirihluta. Það skal þó tekið fram að litlu munar á nokkrum þingmönnum og því gætu einstaka þingsæti færst milli flokka með mjög litlum breytingum á fylgi. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin grænt framboð tapa fylgi frá síðustu kosningum en það er hins vegar þriðji ríkisstjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, sem bætir verulega við sig og mælist nú með 15,4% fylgi og fengi samkvæmt því 11 þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig frá síðustu mælingu sem birt var í gær og stendur nú í 21,4% en er þó talsvert undir kjörfylgi sínu frá síðustu alþingiskosningum. Flokkur forsætisráðherra gefur enn eftir og mælist nú með 10,5% fylgi sem er langt undir kjörfylgi þeirra í kosningum 2017 þegar flokkurinn fékk 16,9% atkvæða.

Samfylking bætir við sig og mælist nú með 13,8% fylgi en aðrir stjórnarandstöðuflokkar, að undanskildum Flokki fólksins, dala lítilsháttar frá síðustu Maskínukönnun. Bæði Píratar og Viðreisn eru með rúmlega 10% fylgi og Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn með rúmlega 6%. Miðflokkurinn rekur lestina með 5,5% fylgi en í síðustu Maskínukönnun mældist hann með 7,1%. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er með innan við 1% fylgi og næði því ekki manni inn á þing.

Ítarlegri niðurstöður má sjá í pdf skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 5.548 talsins. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 22. til 24. september 2021.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir