NÝ RÍKISSTJÓRN OG FORYSTUMENN HENNAR NJÓTA LÍTILS TRAUST HJÁ ÞJÓÐINNI

Heim / Fréttir / NÝ RÍKISSTJÓRN OG FORYSTUMENN HENNAR NJÓTA LÍTILS TRAUST HJÁ ÞJÓÐINNI

Ný ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins nýtur lítils traust samkvæmt könnun sem hófst um leið og ríkisstjórnin hafði tekið við völdum á Bessastöðum í gær, 7. apríl. Rösklega fjórðungur ber mjög eða fremur mikið traust til hennar, en 65-66% bera fremur eða mjög lítið traust til hennar, þar af 54-55% mjög lítið.

Það eru einungis tveir bakgrunnshópar þar sem fleiri bera mikið traust til nýrrar ríkissjónar en lítið, það eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Slétt 81% kjósenda Sjálfstæðisflokksins ber mikið traust til nýrrar ríkisstjórnar og um 91% kjósenda Framsóknarflokksins. Karlar bera meira traust til ríkisstjórnarinnar en konur, eða tæplega 32% karla en rösklega 19% kvenna. Traustið eykst eftir aldri, þannig bera um 12% þeirra sem eru yngri en 25 ára mikið traust til nýrrar ríkisstjórnar en 33-34% þeirra sem eru 45 ára og eldri. Ný ríkisstjórn nýtur minnst trausts í Reykjavík en mest á Austurlandi og traustið eykst með hærri tekjum en minnkar með aukinni menntun.

Hátt í tveir af hverjum þremur bera lítið traust til nýs forsætisráðherra

Innan við fimmtugur ber fremur eða mjög mikið traust til nýs forsætisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar. Hátt í tveir af hverjum þremur bera fremur eða mjög lítið traust til hans, þar af hartnær helmingur þjóðarinnar mjög lítið.

Næstum 84% kjósenda flokksmanna Sigurðar Inga bera mikið traust til hans en rétt rúmlega 1% lítið. Meira en helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokksins ber mikið traust til Sigurðar Inga en 14-15% lítið. Nýr forsætisráðherra hefur lítið traust meðal kjósenda annarra flokka, en 1-4% þeirra bera mikið traust til hans. Karlar bera meira traust til forsætisráðherra en konur, um 25% karla á móti rúmlega 14% kvenna. Þá kemur í ljós að 10-13% þeirra sem eru yngri en 45 ára bera mikið traust til Sigurðar Inga en um það bil 26-28% þeirra sem eru 45 ára eða eldri. Kjósendur á Austurlandi, Suðurlandi og Reykjanesi besta meira traust til Sigurðar Inga en kjósendur annarra landshluta og minnst er traustið til hans meðal Reykvíkinga. Lægsti tekjuhópurinn ber minna traust til forsætisráðherra en aðrir og ráðherrann nýtur minna traust meðal háskólamenntaðra en annarra.

Tæplega 62% þjóðarinnar bera lítið traust til fjármálaráðherra

Um 26% bera mjög eða frekar mikið traust til Bjarna Benediktssonar sem fjármálaráðherra, en hátt í 62% bera fremur eða mjög lítið traust til hans.

Næstum 9 af hverjum 10 kjósendum Sjálfstæðisflokksins bera mikið traust til Bjarna Benediktssonar en næstum 2% lítið. Tæplega 62% kjósenda Framsóknarflokksins bera mikið traust til fjármálaráðherra en 12-13% lítið. Karlar bera meira traust til Bjarna Benediktssonar en konur og traust til hans eykst með hækkandi aldri og tekjum. Traust til fjármálaráðherra er minnst í Reykjavík og meðal háskólamenntaðra.

Þá kemur í ljós að eftir því sem fólk hefur fylgst betur með atburðum síðustu daga, að eigin sögn, því minna traust bera þeir til stjórnarinnar og forystumanna hennar.

Svarendur voru 2438 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er panelhópur fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 7.-8.apríl 2016.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir