Ólíkt nágrönnunum okkar í löndunum í kringum okkur getum við íslendingar ekki tölt út í næstu matvöruverslun eftir einni bjórkippu eða öðrum áfengum drykkjum. Reglulega skapast umræða í samfélaginu hvort eðlilegt sé að breyta þessu og þar eru uppi ýmis ólík sjónarmið. Maskína spurði almenning nýlega um viðhorf hans til að selja annars vegar bjór og léttvín í matvöruverslunum og hins vegar sterkt áfengi.
Yfir 50% svarenda 39 ára og yngri vilja bjór og léttvín í matvöruverslanir
Niðurstöðurnar leiða í ljós skiptar skoðanir meðal almennings og augljóst að fólk gerir talsverðan greinarmun á hvort selja eigi bjór og léttvín eða sterkt áfengi og mældist meiri andstaða við sölu á sterku áfengi. Aðspurð um sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum segjast á 47–48% aðspurðra hlynnt því en rétt rúmlega 36% andvíg því. Þegar niðurstöðurnar eru rýndar eftir aldri kemur fram talsverður munur og mun fleiri hlynntir sölu á slíku áfengi í yngri hópunum. Þannig sést að yfir 50% þeirra sem eru 39 ára og yngri eru hlynnt sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum. Áberandi mestur stuðningur í 30–39 ára hópnum þar sem hátt í 66% eru hlynnt sölu á léttvíni og bjór. Það dregur jafnt og þétt úr þeim stuðningi í eldri hópunum og meðal 60 ára og eldri eru aðeins tæp 27% hlynnt sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum og rúmlega 57% eru andvíg.
Stjórnmálaskoðun hefur áhrif – mikill munur á afstöðu kjósenda ríkissjórnarflokkanna
Þegar niðurstöðurnar eru rýndar eftir stjórnmálaskoðun kemur mikill munur á afstöðu í ljós. Það eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar sem skera sig frá öðrum og eru mun hlynntari sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum en kjósendur annarra flokka. Rétt um 77% kjósenda Viðreisnar segjast hlynnt sölunni og ríflega 62% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru á sama máli. Kjósendur samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn eru aftur á móti nokkuð á öndverðum meiði og segjast 44% kjósenda bæði Vinstri grænna og Framsóknar andvíg sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum.
Það er því ljóst miðað við þetta að ekki er mikla samstöðu að sjá meðal kjósenda ríkisstjórnarflokkanna sem gefur vísbendingu um það að erfitt gæti reynst að komast að sameiginlegri niðurstöðu um málið í ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur.
Talsvert færri hlynntir sölu á sterku áfengi
Aðspurð um viðhorf til sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum voru mun færri hlynntir en þegar spurt var um bjór og léttvín. Alls voru 22–23% aðspurðra hlynnt sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum en 57–58% andvíg því. Mestur var stuðningurinn meðal yngri hópanna og var fjórðungur svarenda 29 ára og yngri hlynntir sölu á sterku áfengi í matvörubúðum og um 40% þeirra sem eru 30–39 ára en sá stuðningur minnkaði svo hratt eftir því sem ofar færðist í aldri og meðal 60 ára og eldri voru aðeins tæp 11% hlynnt slíkri sölu.
Aldrei fleiri hlynntir sölu á áfengi í verslunum en nú
Maskína hefur mælt viðhorf almennings til sölu á áfengi í matvöruverslunum frá árinu 2016. Þegar sá samanburður er skoðaður sést að stuðningur við söluna hefur vaxið jafnt og þétt frá árinu 2017. En árið 2016 mældist hann meiri en árin 2017 og 2018. Aldrei hafa fleiri verið hlynntir sölu á áfengi í matvöruverslunum eins og núna.
Ítarlegar niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 966, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 11. til 16. febrúar 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.