MEIRA EN HELMINGUR ÍSLENDINGA MYNDI KJÓSA HILLARY CLINTON

Heim / Fréttir / MEIRA EN HELMINGUR ÍSLENDINGA MYNDI KJÓSA HILLARY CLINTON

Tæplega 53% Íslendinga myndu kjósa Hillary Clinton til embættis forseta Bandaríkjanna ef þeir væru á kjörskrá þar í landi og kosið yrði í dag og rúmlega 38% myndu greiða Bernie Sanders atkvæði sitt, en bæði keppa að því að verða útnefnd fyrir Demókrataflokkinn í Bandaríkjunum. Á bilinu 4-5% myndu kjósa Donald Trump. Svarendur gátu valið á milli frambjóðenda sem í byrjun mars voru enn með í forval kosninganna.

Nokkur munur er á stuðningi kynjanna við frambjóðendur, en þannig styðja rúmlega 67% kvenna Hillary Clinton en tæplega 40% karla. Stuðningur við Bernie Sanders er hinsvegar meiri á meðal karla en kvenna, þar sem um 46% karla segjast myndu kjósa Bernie Sanders en tæplega 30% kvenna. Þá er einnig munur á stuðningi við frambjóðendurna eftir aldri svarenda, þar sem 67% 55 ára og eldri myndu kjósa Hillary Clinton en yfir 60% þeirra sem eru yngri en 25 ára myndu kjósa Bernie Sanders. Síðan má sjá stuðningur við Hillary Clinton dvínar aðeins með aukinni menntun en því er öfugt farið hjá Bernie þar sem stuðningur eykst með lengri skólagöngu.

Meiri áhugi á forvali forsetaframbjóðenanna meðal karla

Tæplega 44% svarenda segjast hafa fylgst í meðallagi mikið/lítið með forvali forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum á undanförnum vikum en rúmlega 22% segjast hafa fylgst mikið með því. Meðaltalið er 2,84 sem er nálægt því að endurspegla svarkostinn „Í meðallagi“.

Áhugi á forvali forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum er meiri hjá körlum en konum þar sem um 30% karla hafa fylgst mikið með því á undanförnum vikum samanborið við um 15% kvenna. Þá eykst áhugi á forvali með hærri tekjum, þannig hafa um 30% svarenda í tekjuhæsta hópnum fylgst mikið með forvalinu samanborið við rúmlega 14-16% í tveimur tekjulægstu hópunum. Sömu sögu er að segja þegar svörin eru skoðuð eftir menntun svarenda, um fjórðungur þeirra sem hafa lokið háskólaprófi hafa fylgst mikið með forvalinu samanborið við slétt 17% þeirra sem hafa aðeins lokið grunnskólaprófi. Þá má sjá mun á áhuga á forvalinu eftir búsetu.

Svarendur, 857 manns, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er panelhópur fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 3.-9. mars 2016. Send var áminning tvisvar sinnum á þá sem ekki höfðu svarað.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir