Fylgi flokkanna á landsvísu er mælt hjá Maskínu í hverjum mánuði og nú liggur fyrir fylgismæling í mars 2023. Nokkurra tíðinda gætir í þeim niðurstöðum þar sem Samfylkingin mælist nú stærst allra flokka þriðja mánuðinn í röð.
Kristrún með pálmann í höndunum?
Breytingar á forystu Samfylkingarinnar voru gerðar á haustmánuðum þegar ný formaður, Kristrún Frostadóttir, tók við stjórnartaumunum. Síðan þá hefur Samfylkingin bætt við sig töluverðu fylgi og er samkvæmt þessari könnun með 24-25% fylgi. Það er rúmum 4 prósentustigum meira en Sjálfstæðisflokkurinn sem mælist næst stærstur þriðja mánuðinn í röð. Í fyrsta skipti er munurinn á flokkunum marktækur sé tekið tillit til vikmarka en þó með minnsta mögulega mun. Það sem styrkir það að munurinn sé raunverulegur er að Samfylkingin hefur verið stærst í þrjár mælingar í röð. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur verið stöðugt í kringum 20% að undanförnu en hefur farið hæst í um 25% á yfirstandandi kjörtímabili.
Framsókn siglir lygnan sjó
Litlar breytingar hafa orðið á fylgi Framsóknar undanfarna mánuði en það hefur þó dregist saman frá því að það náði hámarki í um 20% í ágúst á síðast ári. Nú mælist Framsóknarflokkurinn með rúmlega 13%.
Hrun í fylgi VG
Flokkur forsætisráðherra hefur mátt muna sinn fífil fegurri og mælist nú með 6% fylgi sem er með því allra minnsta sem flokkurinn hefur nokkurn tímann verið með. VG hefur því tapað ríflega helmingi af sínu fylgi frá kosningum þegar flokkurinn uppskar 12,6%. Það er því á brattann að sækja. VG skipar sér nú í hóp minnstu flokkanna sem eiga sæti á Alþingi.
Viðreisn og Píratar á svipuðu reki
Viðreisn hefur mælst nokkuð stöðug að undanförnu með 8-10% fylgi. Í þessum mánuði er engin undantekning þar sem fylgið mælist 9%. Sínu hærri eru Píratar með 10% fylgi sem er rúmum 2 prósentustigum minna en fylgið var í Maskínukönnun febrúarmánaðar.
Flokkur fólksins, Sósíalistar og Miðflokkur með 5-6% fylgi
Fylgi bæði Miðflokksins og Flokks fólksins hefur verið stöðugt síðastliðna mánuði í kringum 5-6%. Fylgi Sósíalista hefur verið á bilinu 4-6%.
Allir ríkisstjórnarflokkarnir mælast undir kjörfylgi
Samkvæmt þessari Maskínukönnun hafa allir flokkarnir í ríkisstjórn tapað þónokkru fylgi og er samanlagt fylgi þeirra um 39% sem er sambærilegt því sem var í febrúar sl. Þá var samalgt fylgi þeirra í algjöruágmarki á þessu kjörtímabili. Til samanburðar var samanlagt kjörfylgi þeirra 54,4% eftir kosningar.
Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.599, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 6. til 20. mars 2023.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.