Spriklandi ferskur Borgarviti Maskínu hefur nú litið dagsins ljós en þar eru spurningar sem lagðar eru fyrir íbúa Reykjavíkur sem snúa að störfum kjörinna fulltrúa í borgarstjórn, störf borgarstjóra og fleira. Í þessum Borgarvita er í fyrsta skipti spurt um störf Einars Þorsteinssonar sem tók við af Degi B Eggertssyni nýverið.
Samylking og Sjálfstæðisflokkur skipta með sér um helmingi fylgisins
Af þeim níu flokkum sem eiga fulltrúa í borgarstjórn eru tveir flokkar, Samfylking og Sjálfstæðisflokkurinn, langstærstir og eru samanlagt með rétt tæplega helming fylgisins. Samfylkingin með 26% fylgi tveimur prósentustigum stærri en Sjálfstæðisflokkurinn samkvæmt þessari mælingu.
Miðflokkurinn sækir í sig veðrið
Miðflokkurinn hefur bætt hlutfallslega mestu við fylgi sitt og mælist nú með 7%. Þetta rímar vel við gott gengi flokksins í skoðanakönnunum á landsvísu að undanförnu. Litlar breytingar er að sjá á fylgi annarra flokka.
Ítarlegri niðurstöður um Borgarvita Maskínu er að finna í pdf-skýrslu hér.
Við munum halda áfram að fjalla um niðurstöður Borgarvita Maskínu á næstu dögum.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 699, en þeir eru á aldrinum 18 ára og eldri og búsettir í Reykjavík. Könnunin fór fram 22. mars – 11. apríl 2024.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar til helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er