Lífshamingja, hagur og fjárhagsstaða

Heim / Uncategorized @is / Lífshamingja, hagur og fjárhagsstaða

Í nýlegri könnun Maskínu var spurt um lífshamingju, hag og fjárhagsstöðu Íslendinga.

Þar kemur fram að fjórðungur svarenda merkir við 9 eða 10 þegar það er beðið um að segja hversu hamingjusamt það er á kvarðanum 0 til 10. Tæplega fimmtungur merkir við 6 eða lægra en stærsti hópurinn, eða næstum 55% merkir við 7-8. Meðaltalið er 7,47 og hefur hækkað lítillega frá því í upphafi árs þegar það mældist 7,30.

alt

Ekki er marktækur munur á hamingju kynjanna og ekki munur eftir aldri. Þá eru Austfirðingar hamingjusamastir landsmanna. Eftir því sem tekjur og menntun eykst því hamingjusamari eru menn. Þá má sjá að kjósendur Framsóknarflokksins eru mun hamingjusamari en kjósendur annarra flokka.

Um 29% svarenda segja að endar nái ekki saman um hver mánaðarmót, þar af segja rösklega 10% að mikið vanti upp á. Um 34% segja að endar nái saman en næstum 37% fólks á afgang um hver mánaðarmót, þar af 4-5% mikinn afgang.

alt

Ekki er marktækur munur á hópunum eftir kyni, aldri eða búsetu en mikill munur er eðlilega á svörum fólks eftir tekjum. Meira en 23% þeirra sem hafa grunnskólapróf eiga langt í land með að ná endum saman en 6-7% þeirra sem hafa meiri menntun. Kjósendur Pírata eru ólíklegastir til að ná endum saman, eða næstum 40% þeirra (14,3% + 24,5%) en meira en 55% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eiga afgang um hver mánaðarmót.

Á bilinu 48-49% telja að hagur þeirra muni standa í stað á næstu misserum en 37-38% telja að hagur þeirra muni batna. Næstum 14% telja að hagur þeirra muni versna, þar af um 2% mikið.

alt  alt

Eftir því sem fólk eldist því ólíklegra telur það að hagur þess muni batna. Þeir sem hafa 800 þúsund í tekjur eða meira telja í meiri mæli að hagur þeirra muni batna og sama er að segja um þá sem hafa meiri menntun en grunnskólapróf. Kjósendur stjórnarflokkanna eru bjartsýnni á betri tíma en þeir sem styðja stjórnarandstöðuflokkana.

Mikil tengsl eru milli þessara þriggja spurninga. Þannig eru þeir hamingjusamari sem horfa fram á bjartari tíma og þeir sem eiga afgang um hver mánaðarmót.

Könnun Maskínu var lögð fyrir panelhóp Maskínu, Þjóðgáttina, og eru niðurstöður vigtaðar með tilliti til kyns, aldurs og búsetu til samræmis við Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 29. maí til 15. júní.

Spurningarnar voru þrjár:

Almennt séð, hversu hamingjusamur/söm myndir þú segja að þú værir á kvarðanum 0-10?
Þegar kemur að fjárhagsstöðu þinni um hver mánaðarmót, myndir þú segja að þú ættir afgang, endar næðu saman eða þú næðir ekki endum saman?
Telur þú að hagur þinn muni almennt batna eða versna á næstu misserum?

Aðrar fréttir