Það styttist óðfluga í íslenski Evróvision-hópurinn stígi á stokk og flytji lag sitt Með hækkandi sól í ítölsku borginni Torino. Maskína hefur undanfarin ár spurt almenning um hvaða sæti hann spáir framlagi Íslands í kepnninni. Í ár er almenningur hóflega bjartsýnn á gengi íslenska hópsins.
6% spá Íslandi í fimm efstu sætin
Um6% aðspurðra sögðust halda að okkar framlag, lagið Með hækkandi sól, myndi lenda í 1–5 sæti í keppninni í ár. Til samanburðar voru Íslendingar mun bjartsýnni á gengi bæði lagsins 10 years, sem fór fyrir Íslands hönd í fyrra, og lagsins Hatrið mun sigra, sem var framlag okkar árið 2019. Árið 2021 spáðu 22% Daða Frey og Gagnamagninu félögum 1–5 sætinu og árið 2019 voru það 24% sem spáðu hljómsveitinni Hatara slíku gengi. Í ár spáir fjórðungur svarenda íslenska laginu í 16.–20. sæti.
Ítarlegri niðurstöður má finna hér í pdf-skýrslu.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.693, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 29. apríl til 4. maí 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.