HVERNIG STANDA SKÓLAR Á ÍSLANDI SIG?

Heim / Fréttir / HVERNIG STANDA SKÓLAR Á ÍSLANDI SIG?

Rösklega 27% telja að grunnskólar á Íslandi standi sig vel í samanburði við nágrannalönd en örlítið stærri hópur (28,3%) telur hins vegar að þeir standi sig illa. Hér er reiknað meðaltal á fimm punkta kvarða þar sem valmöguleikinn „Mjög vel“ fær gildið 5 en valmöguleikinn „Mjög illa“ fær gildið 1. Meðaltalið er 2,98 sem þýðir að svarendur segja að grunnskólar á Íslandi standi sig í meðallagi vel eða illa í samanburði við nágrannalönd.
Svarendur sem eru yngri en 25 ára telja mun síður en þeir sem eldri eru að grunnskólarnir standi sig vel í samanburðinum, þeir sem eru einhleypir telja einnig síður en aðrir að grunnskólarnir standi sig vel. Þegar svör eru skoðuð eftir stjórnmálaskoðunum má sjá að kjósendur Vinstri grænna og Framsóknarflokksins telja fremur en kjósendur annarra flokka að grunnskólar á Íslandi standi sig í samanburði við nágrannalönd.

Staða framhaldsskólana í samanburði við nágrannalönd

Einn af hverjum þremur telur að framhaldsskólar á Íslandi standi sig vel í samanburði við nágrannalönd en rösklega 23% telja að þeir standi sig illa. Meðaltalið er 3,11 sem þýðir að svarendur segja að meðaltali að framhaldsskólar standi sig í meðallagi vel eða illa í samanburði við nágrannalönd.
Elstu svarendurnir telja fremur en þeir sem yngri eru að framhaldsskólarnir standi sig vel í samanburði en lægsta meðaltalið er í aldurshópnum 25-34 ára. Kjósendur Framsóknarflokksins og Vinstri grænna telja fremur en kjósendur annarra flokka að framhaldsskólar á Íslandi standi sig vel í samanburði við nágrannalönd. Þá eru þeir sem telja grunnskóla á Íslandi standa sig vel mun líklegri en aðrir til að telja einnig að framhaldsskólar á Íslandi sig vel í samanburði við nágrannalönd.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu á netinu og fór fram dagana 23. október til 3. nóvember 2015. Íslendingar af báðum kynjum á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu tóku þátt. Svarendur voru 802 og voru gögnin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu í samræmi við upplýsingar úr Þjóðskrá. Þetta er gert svo svörin endurspegli sem best afstöðu þjóðarinnar. Spurt var: „Hversu vel eða illa telur þú að grunnskólar standi sig í samanburði við nágrannalönd“ og „Hversu vel eða illa telur þú að framhaldsskólar standi sig í samanburði við nágrannalönd?“.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir