Halla Hrund enn með mest fylgi en Katrín sækir að henni

Heim / Fréttir / Halla Hrund enn með mest fylgi en Katrín sækir að henni

Hér eru birtar niðurstöður könnunar sem framkvæmd var síðustu 2 vikur, eða frá 30. apríl til 8. maí. Halla Hrund er með tæplega 30% fylgi og næst á eftir henni er Katrín Jakobsdóttir með tæplega 27% fylgi. Eins og í fyrri könnunum eru Baldur Þóhallsson (tæplega 19% og Jón Gnarr (rúmlega 11%) næstir.

Þegar á hinn bóginn tölur eru skoðaðar eftir fyrstu kappræður á RÚV kemur í ljós marktæk breyting hjá Höllu Hrund Logadóttur. Fyrir kappræður sögðust 33% ætla að kjósa hana en tæplega 23% eftir kappræður, hér munar tæplega 10 prósentustigum. Einnig hækkar hlutfall þeirra sem vilja hana síst sem forseta úr tæplega 9% í rúmlega 18% fyrir og eftir kappræður, en þó eru hlutfall þeirra sem ekki vilja Höllu Hrund sem forseta lægst allra.

Næst mesta breytingin er þó hjá Jóni Gnarr en hann eykur fylgi sitt eftir kappræðurnar úr 10% í 14%. Breytingin fyrir og eftir kappræður hjá hinum tveimur sem mest fylgi hafa, Baldri Þóhallssyni og Katrínu Jakobsdóttur, eru óverulegar. Þessar breytingar og hjá öðrum frambjóðendum eru ekki marktækar.

Þegar skoðað er hvern fólk vill síst fá sem forseta þá er staðan sú að rúmlega 41% vill síst frá Katrínu og breytast tölur nánast ekkert fyrir og eftir kappræður. Um þriðjungur vill Jón Gnarr síst en hlutfallið breytist einnig honum í hag eftir kappræður um rúmlega 6 prósentustig. Rúmlega 14% vilja Baldur Þóhallsson síst og þar breyttu kappræður nánast engu. En eins og áður sagði eru tæplega 12% sem vilja Höllu Hrund síst, en mun hærra hlutfall (18,5%) eftir kappræður en fyrir.

Finna má skýrslu með ítarlegum niðurstöðum hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.236, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar. Könnunin fór fram dagana 30. apríl til 8. maí 2024.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Í könnunum Maskínu er þess gætt sérstaklega að úrtök endurspegli fjölbreytileika samfélagsins – svo sem hvað varðar aldursdreifingu, búsetu og menntunarstig. Upplýsingar um dreifingu svarenda eftir ólíkum hópum eru birtar með niðurstöðum hverju sinni svo fjölmiðlar og aðrir notendur geti lagt sjálfstætt mat á gæði mælinganna og hvaða viðhorf þær endurspegla.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir