Gasgrill á þremur af hverjum fjórum íslenskum heimilum

Heim / Fréttir / Gasgrill á þremur af hverjum fjórum íslenskum heimilum

Þegar vel viðrar draga Íslendingar gjarnan fram grillin og á slíkum dögum leggur mikla grillangan yfir borg og bæ. Maskína spurði um grilleign landans, annars vegar um gasgrill og hins vegar kolagrill og hvað væri í mestu uppáhaldi hjá fólki að grilla.

Lítilsháttar fjölgun gasgrilla frá árinu 2019
Maskína spurði sömu spurninga árið 2019 og síðan þá hefur þeim sem eiga gasgrill fjölgað lítilsháttar. Núna segjast næstum 76% landsmanna eiga gasgrill en voru rúmlega 73% árið 2019. Mun færri eiga kolagrill á sínu heimili eða 16% aðspurðra sem er nánast sama hlutfall og fyrir þremur árum.

Meira grillað á landsbyggðinni
Niðurstöðurnar sýna að hlutfallslega fleiri eiga bæði gas- og kolagrill á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Um 80% landsbyggðarbúa eiga gasgrill á sínu heimili en 6–7 prósentustigum færri höfuðborgarbúa. Svipaða sögu að er að segja af kolagrillum en rúm 18% landsbyggðarbúa hafa aðgang að því á heimili sínu en rétt innan við 15% höfuðborgarbúa.

Lambakjötið vinsælast á grillið
Maskína spurði einnig hvað væri í uppáhaldi hjá landsmönnum að grilla og þar kemur fram að lambakjöt ber höfuð og herðar yfir annað góðgæti. Rúmlega 38% aðspurðra sögðu lambakjöt þeirra uppáhald á grillið, 19–20% sögðu nautakjöt og um 11% hamborgara.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 2.149, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 19. til 24. ágúst 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

 

Aðrar fréttir