Í nýrri könnun Maskínu er Sjálfstæðisflokkurinn eini ríkisstjórnarflokkurinn sem bætir við sig fylgi frá síðustu mælingu og er nú með 23,9%. Vinstri hreyfingin grænt framboð gefur lítillega eftir frá fyrri mælingu og mælist nú með 12,5% en var með 14,2 í síðustu mælingu. Framsóknarflokkurinn gefur sömuleiðis eftir og mælist nú með 11,5% en var með 12,6% í síðustu mælingu.
Af stjórnarandstöðuflokkunum eru það Viðreisn, Píratar og Sósíalistaflokkurinn sem bæta við sig frá síðustu mælingu. Bæði Samfylking og Miðflokkur mælast minni núna en í síðustu mælingu. Samkvæmt þessari mælingu næði Miðflokkur ekki manni á þing en Flokkur fólksins næði inn einum kjördæmakjörnum þingmanni.
Ánægja með störf ríkisstjórnarinnar dalar frá síðustu mælingu og mælist nú 37% en var 39,8%. Hins vegar eykst ánægja með störf stjórnarandstöðunnar örlítið og mælist nú 10,9% en var 10,4% í síðustu mælingu Maskínu.
Nánar má skoða niðurstöðurnar hér í pdf skýrslu.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 2078 talsins. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 31. ágúst til 6. september 2021.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.