Fleiri Íslendingar trúa á guð en álfa

Heim / Fréttir / Fleiri Íslendingar trúa á guð en álfa

Slétt 54% Íslendinga trúa á guð og um 31% á álfa.

Konur eru mun líklegri en karlar að trúa bæði á guð og álfa. Um 60% kvenna trúir á guð, en á bilinu 48-49% karla trúir á guð. Rúmlega 37% kvenna trúir á álfa samanborið við tæplega 25% karla.

Töluverður munur er á trú á guð á milli aldurshópa. Hátt í 32% Íslendinga á aldrinum 18-29 ára trúir á guð samanborið við 73-74% á meðal 60 ára og eldri. Hópurinn 18-29 ára er einnig ólíklegastur til þess að trúa á álfa eða rúmlega 20%. Hópurinn 50-59 ára er líklegastur til þess að trúa á álfa, eða rúmlega 37%.

Reykvíkingar eru ólíklegastir til þess að trúa á bæði álfa og guð. Sunnlendingar og Reyknesingar eru líklegastir til þess að trúa á guð, en Norðlendingar líklegastir til þess að trúa á álfa.

Líklegt er að þeir sem trúi á álfa trúi einnig á guð, en á milli 78% og 79% þeirra sem trúa á álfa trúa einnig á guð. Tæplega 43% þeirra sem trúa ekki á álfa trúa þó á guð.

Píratar eru ólíklegastir til að trúa á guð (24-25%) en Framsóknarmenn líklegastir (rúmlega 83%). Þá eru kjósendur Viðreisnar ólíklegastir til að trúa á álfa (tæplega 7%) en Framsóknarmenn líklegastir (tæplega 47%).

Svarendur voru 836 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 2.-14. nóvember 2018.

Skýrsluna í PDF formi má nálgast hér.

Aðrar fréttir