Ríflega 30% 18 ára Íslendinga og eldri eru hlynnt inngöngu Íslands í ESB, en tæplega 40% andvíg. Þetta er svipuð niðurstaða og fyrir ári, en færri eru nú andvígir inngöngunni (39%) en fyrir sjö árum (51%).
Þeir sem eru 60 ára og eldri eru andvígari inngöngu í ESB en yngri, höfuðborgarbúar eru hlynntari en landsbyggðarbúar og stuðningur eykst með lengri skólagöngu og hærri tekjum.
Eins og búast má við er mikill munur á afstöðu fólks til inngöngu Íslands í ESB eftir stjórnmálaskoðun. Þannig er meirihluti kjósenda Samfylkingarinnar (76,7%) og Viðreisnar (66,7%) hlynntur inngöngu. Á hinn bóginn er meirihluti Miðflokksins (72,8%), Sjálfstæðisflokksins (70,3%), Framsóknarflokksins (68,1%) og Flokks fólksins (52,5%) andvígur inngöngunni.
Þá voru svarendur spurðir hvort þeir teldu að Ísland gæti náð hagstæðum samningi við ESB eða ekki. Hartnær þrír af hverjum fimm (58,8%) kváðu svo vera, en ríflega tveir af hverjum fimm (41,2%) töldu að ekki næðist hagstæður samningur.
Líkt og með afstöðuna til inngöngu í ESB telja höfuðborgarbúar fremur en landsbyggðarbúar að hagstæður samningur næðist og þeir sem hafa lengri skólagöngu og hærri tekjur eru bjartsýnni á slíkan samning en aðrir. Þá er mat á slíkum samningi mjög ólíkt eftir stjórnmálaskoðun, þar sem flestir kjósendur Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Vinstri-grænna telja að hagstæður samningur ætti að nást, en flestir kjósendur Miðflokksins, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Flokks fólksins telja að ekki muni nást hagstæður samningur.
Svarendur könnunar voru 1600 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru 18 ára og eldri alls staðar að af landinu. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 30. janúar til 3. febrúar 2020.