Þau málefni sem eru á höndum sveitafélaganna eru oft og tíðum atriði sem hafa mikil áhrif á daglegt líf fólks. Það má segja að flest af því sem er í nærumhverfi okkar sé á valdi sveitafélaganna. Reykjavík er lang stærsta sveitarfélagið á Íslandi, þ.e. með mestan íbúafjölda og mestu umsvifin. Þess vegna fannst Maskínu kjörið að setja saman það sem við köllum Borgarvita Maskínu en hann samanstendur af spurningum sem snúa að borgarstjórn Reykjavíkur og verður birtur þrisvar sinnum á ári.
Hátt í helmingur óánægður með störf meirihlutans
Þegar spurt var um frammistöðu bæði meirihluta og minnihluta í borgarstjórn kemur fram að hátt í helmingur svarenda þykir bæði meirihlutinn standa sig illa eða 46–47%. Um 21–22% svarenda sagði meirihlutann standa sig vel. Konur voru í minna mæli óánægðar með störf meirihlutans en karlar, en um 40% kvenna sögðust óánægðar með störf meirihlutans en yfir helmingu karla. Áberandi meiri óánægja er með störf meirihlutans meðal þeirra svarenda sem búsettir eru austan Elliðaáa en vestan þeirra. Þá eru þeir sem lokið hafa háskólaprófi ánægðari með störf hans en þeir sem hafa styttri skólagöngu að baki.
Færri voru ánægðir með störf minnihlutans eða hartnær 12% svarenda og rétt um 45% þótti hann hafa staðið sig illa. Líkt og gagnvart meirihlutanum voru konur jákvæðari gagnvart störfum minnihlutans auk þeirra sem tilheyra yngsta aldurshópnum, undir þrítugu.
Byr undir báða vængi Sönnu
Maskína spurði um þann borgarfulltrúa sem fólki þótti hafa staðið sig best á yfirstandandi kjörtímabili og má segja að þar hafi nokkuð óvæntur sigurvegari komið fram. Sanna Madgalena Mörtudóttir naut, samkvæmt þessari könnun, mestrar hylli meðal borgarbúa en 15–16% sögðu hana hafa staðið sig best. Á hæla hennar með um 13% kemur Dagur B. Eggertsson og næst Hildur Björnsdóttir en 12% aðspurðra fannst hún hafa staðið sig best.
Ánægja með störf borgarstjóra dragast saman
Maskína hefur mælt ánægju með störf borgarstjóra áður og sýna þessar niðurstöður að þeim sem eru ánægð með störf Dags fer fækkandi. Rétt tæplega 28% sögðust nú ánægð með störf borgarstjóra en um 48% óánægð með störf hans. Það er mun meiri fjöldi óánægðra heldur en í fyrri mælingum. Til samanburðar má nefna að í Maskínukönnun í nóvember 2021 voru 39% aðspurðra ánægð með störf Dags og 38% óánægð. Í febrúar saman ár var hlutfall ánægðra ennþá hærra eða 40–41% og hlutfall óánægðra um 33%. Það er ljóst á þessum tölum að vinsældir Dags fara dvínandi.
Verulegar hreyfingar á fylgi flokkanna
Niðurstöður Borgarvitans sýna að talsverð hreyfing hefur verið á fylgi flokkanna frá kosningum og munar þar mest hjá Framsóknarflokknum og Pírötum. Píratar, sem fengu 11–12% upp úr kjörkössunum, mælast nú með rúmlega 20% stuðning sem gerir þá að þriðja stærsta flokknum. Framsóknarflokkurinn virðist hann hafa týnt stórum hluta sinna kjósenda. Rúmlega 8% svarenda sögðust kjósa Framsóknarflokkinn sem er rúmum 10 prósentustigum minna en flokkurinn hlaut í kosningum í fyrra. Um prósentustig skilur að Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn og hefur flokkur borgarstjóra örlítið forskot með rúm 23% en Sjálfstæðisflokkurinn undir handleiðslu Hildar Björnsdóttur rúmlega 22%.
Það verður spennandi að sjá hvaða niðurstöður við sjáum þegar næsti Borgarviti Maskínu verður birtur að nokkrum mánuðum liðnum.
Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 702, en þeir eru á aldrinum 18 ára og eldri og búsettir í Reykjavík. Könnunin fór fram 25. nóvember til 2. desember 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar til helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.