Aukin andstaða við laxeldi bæði á landi og í sjó

Heim / Fréttir / Aukin andstaða við laxeldi bæði á landi og í sjó

Umræðan um laxeldi við strendur Íslands hefur farið hátt að undanförnu og skiptast þar á sjónarmið þeirra sem vilja ala lax í sjókvíum og þeirra sem telja hagsmuni villta laxastofnsins í hættu vegna þessa. Maskína hefur spurt almenning um viðhorf hans til laxeldis bæði á landi og sjó frá því 2021 og nýjustu niðurstöður sýna að andstaða gegn hvers kyns laxeldi eykst á mili ára.

Mikill munur á afstöðu til laxeldis í sjó eða á landi
Þó svo að niðurstöðurnar sýni aukna andstöðu við bæði laxeldi í sjó og á landi er mikill munur á viðhorfi fólks eftir því hvort spurt er um eldi í sjókvíum eða á landi en 69% aðspurðra sögðust andvíg laxeldi í sjókvíum og aðeins 10% þeirra hlynnt slíku eldi. Þetta er talsverður viðsnúningur, en á aðeins rúmum tveimur árum hefur þeim sem segjast andvíg laxeldi í sjókvíum fjölgað um 23 prósentustig.

Einnig hefur fjölgað í hópi þeirra sem segjast andvíg laxeldi á landi síðan Maskína lagði spurninguna fyrir fyrst í ágúst 2021. Þá voru 55% hlynnt laxeldi á landi en 14% andvíg. Næstum helmingi fleiri eru nú andvíg eða 26% en 47% er hlynnt.

Mikill munur á afstöðu kynjanna
Karlar eru mun hlynntari laxeldi, bæði í sjó og á landi en konur, en yfir 60% karla eru hlynnt því á landi á meðan innan við þriðjungur kvenna er á þeirri skoðun. Þá er eru 15% karla hlynnt laxeldi í sjókvíum en aðeins 5% kvenna.

Kjósendur Sjálfstæðisflokks, Miðflokks, Framsóknarflokks og Flokks fólksins eru hlynntari laxeldi í kvíum en kjósendur annarra flokka. Munurinn er minni varðandi laxeldi á landi en kjósendur Flokks fólksins og Pírata eru síst hlynntir laxeldi á landi.

Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 937 sem tóku afstöðu til flokks, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 3. til 7. nóvember 2023.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir
Mynd: Seðlabanki Íslands