Maskína hefur spurt um afstöðu til Borgarlínu frá árinu 2018 en þá var meirihluti hlynntur Borgarlínu, eða 53% en fjórðungur var andvígur henni. Aftur árið 2019 var meirihluti hlynntur Borgarlínu. Frá árinu 2019 hefur stuðningur við Borgarlínu hins vegar farið þverrandi og nú eru jafnmargir hlynntir og andvígir Borgarlínu, eða 36%, 28% merkja við “í meðallagi”.
Rúmlega 48% Reykvíkinga eru hlynnt Borgarlínu en 32% eru andvíg. Á hinn bóginn eru næstum 37% íbúa nágrannasveitarfélaganna andvíg Borgarlínu en um 30% hlynnt. Það er því ljóst að skoðanir eru skiptar meðal þeirra hópa sem Borgarlína ætti að nýtast best.
Stuðningur við Borgarlínu er meiri hjá yngra fólki en þeim sem eldri eru. Næstum 52% þeirra sem hafa háskólamenntun eru hlynntir Borgarlínu en einungis tæplega 15% þeirra sem hafa grunnskólapróf.
Kjósendur þriggja flokka skera sig alveg úr varðandi stuðning við Borgarlínu, 7-13% kjósenda Flokks fólksins, Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru hlynnt Borgarlínu samanborið við 43-65% kjósenda hinna flokkanna.
Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 902, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 15. til 20. september 2023.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.