Ekki hafa fleiri Íslendingar verið hlynntir Borgalínunni en nú frá því að Maskína hóf mælingar í byrjun árs 2018. Rúmlega 54% eru hlynnt Borgarlínunni en um 22% eru andvíg.
Konur eru hlynntari Borgarlínunni (57,6%) en karlar (51,2%). Töluvert fleiri karlar en konur eru andvígir Borgarlínunni, en tæplega 28% þeirra eru andvíg samanborið við naumlega 16% kvenna.
Íslendingar á aldrinum 30 til 39 ára eru hlynntastir Borgarlínunni (69,6%). Þeir sem eru 60 ára og eldri eru síður hlynntir, eða um 45%.
Höfuðborgarbúar eru almennt hlynntir Borgarlínunni. Reykvíkingar eru hlynntastir (64,1%) og fylgja nágrannasveitarfélög Reykjavíkur þar á eftir (54,5%). Austfirðingar eru andvígastir Borgarlínunni (37,9%). Austfirðingar eru þeir einu sem eru andvígari Borgarlínunni nú en fyrir ári síðan. Flestir íbúar annarsstaðar af landinu eru töluvert hlynntari Borgarlínunni núna en árið 2018.
Háskólamenntaðir eru hlynntastir Borgarlínunni. Slétt 63% þeirra eru hlynnt henni og tæplega 17% andvíg. Þeir sem lokið hafa grunnskólaprófi eru andvígastir Borgarlínunni (28,4%). Þeir sem hafa lokið framhaldsskólaprófi eða iðnmenntun eru hlynntari Borgarlínunni en þeir sem eru með grunnskólapróf. Milli 48% og 49% þeirra eru hlynnt Borgarlínunni og á biliinu 24-25% eru andvíg. Töluvert fleiri eru hlynntir Borgarlínunni nú enn fyrir ári síðan á meðal þeirra sem lokið hafa framhaldsskólaprófi eða iðnmenntun.
Þeir sem myndu kjósa Samfylkinguna ef kosið yrði til Alþingis í dag eru hlynntastir Borgarlínunni (83,9%), en þeir sem myndu kjósa Miðflokkinn andvígastir (73,9%).
Svarendur voru 884 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 7. til 24. júní 2019.