Mánaðarlega birtir Maskína fylgi stjórnmálaflokkanna á landsvísu og nú liggja niðurstöður aprílmánaðar 2023 fyrir. Þær sýna að fylgi Samfylkingarinnar heldur áfram að vaxa við eins og undanfarna mánuði og slítur sig nú frá öðrum flokkum með ríflega fjórðungsfylgi. Munurinn á fylgi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins, sem er næst stærstur, hefur ekki verið meiri á kjörtímabilinu. Munurinn mælist nú 7 prósentustig. Þessir tveir flokkar skipta nú með sér hátt í helmingi alls fylgis eða um 45%.
Framsókn dalar en VG bætir í
Framsóknarflokkurinn hefur tapað talsverðu fylgi frá síðustu kosningum þegar flokkurinn vann mikinn kosningasigur og uppskar rúm 17% atkvæða. Samkvæmt þessari mælingu hefur Framsókn tapað 7 prósentustigum síðan þá og segjast nú um 10% aðspurðra ætla að kjósa flokkinn. Flokkur forsætisráðherra, VG, er eini flokkurinn í ríkisstjórnarsamstarfinu sem bætir við sig milli mælinga en flokkurinn var í lágmarki í síðast mánuði þegar aðeins 6% aðspurðra sögðust styðja flokkinn. Núna hefur hann bætt 2 prósentustigum við sig og er með rúmlega 8% fylgi.
Píratar yfir kjörfylgi og Viðreisn rýfur 10% múrinn
Píratar hafa undanfarna mánuði mælst yfir kjörfylgi sínu þegar flokkurinn hlaut 8,6% atkvæða. Hann er nú með 11-12% fylgi. Fylgi Viðreisnar er 10-11% og er það með bestu mælingum Maskínu á Viðreisn. En flokkurinn hefur aðeins tvisvar sinnum áður rofið 10% múrinn á þessu kjörtímabili, en það var í síðasta mánuði og í apríl á síðasta ári.
Flokkur fólksins, Miðflokkurinn og Sósíalistar á svipuðum slóðum
Fylgi Miðflokksins hefur haldist stöðugt að undanförnu og er nú 6%. Það sama er uppi á teningnum hjá Sósíalistum og Flokki fólksins sem eru báðir með fylgi á bilinu 4-5%.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna dregst áfram saman
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja hefur síðastliðna tvo mánuði verið rétt um 39% og hafði þá ekki verið lægra á kjörtímabilinu. En nú dregst það enn meira saman og er samkvæmt þessari Maskínukönnun í lok apríl 2023 eru flokkarnir samanlagt með slétt 37%. Þetta gerist þrátt fyrir að Vinstri græn réttu heldur úr kútnum.
Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 852, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 13. til 19. apríl 2023.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.