Á dögunum var framkvæmd Maskínukönnun þar sem spurt var um ánægju og óánægju fólks með störf borgarstjóra Reykjavíkur, Dags B. Eggertssonar. Ánægja með störf hans hefur dalað lítillega frá því að spurt var í upphafi árs.
Meiri ánægja er meðal Reykvíkinga en landsmanna allra með störf borgarstjóra. Þannig eru tæplega 38% íbúa Reykjavíkur óánægð með störf borgarstjóra en 39% ánægð. Íbúar miðborgar og Vesturbæjar eru ánægðastir með störf Dags, eða 61% en minnst er ánægjan austan Elliðaáa eða 28%.
Rösklega 28% íbúa alls landsins eru ánægð með störf borgarstjóra en 41,5% eru óánægð. Eins og fyrr sagði eru það borgarbúar sem eru ánægðastir með störf borgarstjóra en óánægðastir eru þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, en einungis um fimmtungur þeirra er ánægður með störf Dags.
Ánægjan eykst með auknu menntunarstigi og eru háskólamenntaðir mun ánægðari en þeir sem minni menntun hafa. Mun hærra hlutfall þeirra sem eldri eru eru óáægð með störf borgarstjóra þannig eru um helmingur þeirra sem eru 60 ára og eldri óánægð en tæplega 32% þeirra sem eru undir þrítugu, þegar skoðaðar eru tölur fyrir landið allt.
Ítarlegri niðurstöður er að finna hér í pdf skýrslu.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 2.128 talsins af öllu landinu og 601 í Reykjavík. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 26. október til 4. nóvember 2021.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.