Í ljósi umræðu um kannanir fyrir þessar kosningar er gott að líta á nokkur atriði. Í flestum tilvikum munaði minna en 2 prósentustigum á könnunum og því sem upp úr kjörkössunum kom. Þá sást vel hver þróun fylgisins var hjá flokkunum vikuna fyrir kosningar. Í tilviki Maskínu birtum við t.d. tvær kannanir í síðustu viku og þróunin milli kannana var almennt í rétta átt.
Síðustu kannanir eru teknar tveimur til þremur dögum fyrir kosningar þannig að síðustu dagar kosningabaráttu skipta mjög miklu máli og hvernig talað er til kjósenda þessa síðustu daga. Greinilegt er að hreyfing fylgis var í átt til ríkisstjórnarflokkanna frá fyrri könnunum dagana fyrir kosningar.
Einnig setur Maskína mikinn fyrirvara um hvernig þingsæti skiptast milli flokka sem byggt er á könnunum. Flókið kosningakerfi og skipting eftir kjördæmum gerir það að verkum að erfitt er að skipta fjölda þingsæta á hvern flokk, en oft eru það þær upplýsingar sem fjölmiðlar og frambjóðendur hafa mestan áhuga á.
Að spá fyrir um kosningar eru einnig ólíkt öðrum könnunum því þar er spurt hvernig þú ætlar að ráðstafa atkvæði þínu í framtíðinni, eftir nokkra daga. Í öðrum könnunum er á hinn bóginn spurt hvert viðhorf þitt er til ákveðins málefnis þá og þegar, hvernig þér líður í vinnunni í dag eða hvernig þjónustu þú fékkst í gær. Þá er í öllum könnunum einhver óvissa þar sem aðeins brot t.d. af kjósendum eru spurt, þó gögn séu vigtuð eftir helstu lýðfræðilegu breytum til þess að minnka þessa óvissu.
Að lokum vill Maskína þakka þeim fjölmörgu sem gáfu sér tíma til þátttöku í könnunum í aðdraganda kosninga.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.