Ríflega 92% Íslendinga hyggjast kjósa Guðna Th. Jóhannesson í komandi forsetakosningum en bilinu 7-8% Guðmund Franklín Jónsson.
Þegar niðurstöður eru skoðaðar eftir helstu lýðfræðilegum breytum, svo sem kyni, aldri, búsetu, menntun og heimilistekjum, má sjá að mikill meirihluti í öllum hópum hyggst kjósa Guðna. Þó eru marktækt fleiri karlar (12%) en konur (3%) sem hafa hug á því að kjósa Guðmund og því eldri sem svarendur eru þeim mun líklegri eru þeir til þess að kjósa Guðmund, en 16% svarenda sem eru 60 ára og eldri ætla kjósa hann.
Kjósendur Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs eru þeir allra líklegustu til að kjósa Guðna, en á milli 97% og 99% þeirra segjast ætla kjósa hann. Guðmundur sækir fylgið sitt mest til kjósenda Miðflokksins (40%), Flokk fólksins (27%), Framsóknarflokksins (14%) og Sjálfstæðisflokksins (13%).
Svarendur voru 891 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 3. til 10. júní 2020.
Nánari upplýsingar má finna hjá Þóru Ásgeirsdóttur í síma 578-0125 eða hjá thora@maskina.is.