STUÐNINGUR VIÐ FLUGVÖLLINN Í VATNSMÝRI MINNKAR

Heim / Fréttir / STUÐNINGUR VIÐ FLUGVÖLLINN Í VATNSMÝRI MINNKAR

Næstum 59% segjast nú vera hlynnt (fremur eða mjög) því að framtíðarstaðsetning flugvallarins í Reykjavík verði í Vatnsmýrinni. Síðast þegar Maskína spurði í september 2013 voru 72% hlynnt núverandi staðsetningu, þannig að stuðningur hefur minnkað umtalsvert, þótt mun fleiri séu hlynntir flugvellinum í Vatnsmýri en eru andvígir. Minni munur er þó á þeim sem eru andvígir nú og síðast, þeir eru rúmlega 22% nú en voru rösklega 17% í september 2013. Fleiri nefna því miðjukostinn nú en fyrir tveimur og hálfu ári síðan, rúmlega 19% nú en voru rösklega 10% þá. Þegar meðaltalið er skoðað, sem er 3,68 (milli í meðallagi og fremur hlynnt(ur)) en var 4,06 í september 2013, er aðalmunurinn sá að í fyrri könnuninni voru rúmlega 60% mjög hlynnt en nú einungis tæplega 44%.

Íbúar landsbyggðarinnar hlynntari

Enginn munur er á afstöðu kynjanna en konur voru hlynntari en karlar árið 2013. Íbúar landsbyggðarinnar eru nú líkt og þá hlynntari en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu og sama er að segja um þá sem lokið hafa háskólamenntun þeir eru líkt og í september 2013 andvígari því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Árið 2013 var ekki  munur á afstöðu fólks eftir aldri en nú bregður svo við að eftir því sem fólk resktist þeim mun hlynntara er það núverandi staðsetningu flugvallarins.

Kjósendur stjórnarflokkanna eru mun hlynntari núverandi staðsetningu en kjósendur stjórnarandstöðuflokkanna, en einnig er hærra hlutfall kjósenda Vinstri grænna og Pírata hlynnt en andvígt.

Spurt var: „Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu því að framtíðarstaðsetning flugvallarins í Reykjavík verði í Vatnsmýrinni?“. Svarendur koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er panelhópur fólks sem er dregið með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 15. – 26. janúar 2016. Send var áminning þrisvar sinnum á þá sem ekki höfðu svarað. Alls svöruðu 847 manns og var svarhlutfall tæplega 50% af upphaflegu úrtaki.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir