Nýlega lagði Maskína nokkrar spurningar um atvinnuleysisbætur fyrir meðlimi Þjóðgáttar Maskínu. Niðurstöðurnar sýndu að um 30% finnst stjórnvöld hafa staðið sig vel í að draga úr atvinnuleysi en um 23% finnst þau hafa staðið sig illa. Rösklega 47% segja þau hafi staðið sig í meðallagi vel/illa.
Þannig finnst körlum stjórnvöld hafi staðið sig betur en konum, yngsta hópnum finnst þau hafa staðið sig verr en öðrum hópum og þeim tekjulægri finnst þau hafa staðið sig verr en þeir sem hærri tekjur hafa. Kjósendum stjórnarflokkanna finnst stjórnvöld hafi staðið sig miklu betur en kjósendum stjórnarandstöðuflokkanna, en fleiri kjósendum þeirra finnst stjórnvöld hafa staðið sig illa en vel en því er öfugt farið með kjósendur stjórnarflokkanna.
Um 29% vilja ekki hámarkstíma á atvinnuleysisbætur
Þegar spurt var hvort takmarka ætti þann tíma sem einstaklingur gæti fengið atvinnuleysisbætur kom í ljós að rösklega 71% svarenda finnst að það eigi að takmarka hann en um 29% vilja ekki hámarkstíma á atvinnuleysisbætur.
Þeir sem telja að takmarka eigi tíma á atvinnuleysisbótum voru síðan spurðir hver hámarkstími atvinnuleysisbóta ætti að vera kom í ljós að ríflega fimmtungur vill að þær séu greiddar lengur en tvö ár. Hátt í fjórðungur vill að þær séu greiddar í 12 mánuði eða skemur og annar fjórðungur að þær verði greiddar í 13-24 mánuði.
Mun hærra hlutfall kjósenda Pírata og Samfylkingarinnar vilja hafa ótakmarkaðan tíma á atvinnuleysisbótum, eða yfir 40%, en 13-14% kjósenda stjórnarflokkanna.
Meirihluti vill að atvinnuleysisbætur séu lægri en lágmarkslaun
Rösklega 38% segja að atvinnuleysisbætur eigi að vera jafnar lágmarkslaunum, en á milli 56% og 57% segja að þær eigi að vera lægri en lágmarkslaun, þar af segja 48-49% að þær eigi að vera nokkuð lægri. Einungis rösklega 5% finnst að atvinnuleysisbætur eigi að vera hærri en lágmarkslaun.
Körlum finnst fremur en konum að atvinnuleysisbætur ættu að vera lægri en lágmarkslaun, eða um 62% á móti 51-52%. Um 7 af hverjum 10 kjósendum stjórnarflokkanna finnst að atvinnuleyfisbætur eigi að vera lægri en lágmarkslaun, en á bilinu 45-55% kjósenda stjórnarandstöðuflokkanna. Þá finnst þeim sem telja að takmarka eigi þann tíma sem fólk fær atvinnuleysisbætur í meiri mæli að atvinnuleysisbætur eigi að vera lægri en lágmarkslaun en öðrum. Þeir sem telja að stjórnvöld hafi staðið sig illa við að minnka atvinnuleysi vilja í meiri mæli að atvinnuleysisbætur séu hærri en lágmarkslaun en aðrir.
Könnun Maskínu var lögð fyrir panelhóp Maskínu, Þjóðgáttina, og eru niðurstöður vigtaðar með tilliti til kyns, aldurs og búsetu til samræmis við Þjóðskrá. Könnunin fór fram dagana 17. til 28. september 2015.