Mikill stuðningur við byggingu nýs Landspítala

Heim / Uncategorized @is / Mikill stuðningur við byggingu nýs Landspítala

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu eru um fjórir af hverjum fimm Íslendingum fylgjandi því að nýr Landspítali verði reistur á næstu árum en slétt 6% eru því andvíg. Um þetta var fjallað í Morgunútgáfunni á RÚV.

tafla1

pie1

Þegar svörin eru greind eftir bakgrunni má sjá að stuðningur við byggingu nýs Landspítala eykst með auknum aldri og hærri tekjum. Þá benda niðurstöðurnar til þess að kjósendur Bjartrar framtíðar sé mun frekar fylgjandi byggingu nýs Landspítala en kjósendur annarra flokka þó munurinn sé ekki tölfræðilega marktækur.

Tæplega helmingur sáttur við Hringbraut

Tæplega helmingur Íslendinga segist sáttur við að nýr Landspítali verði reistur við Hringbraut, verði hann á annað borð reistur. Talsvert færri (28%) segjast þó vera ósáttir við staðsetninguna við Hringbraut.

tafla2

pie2

Þegar svörin eru skoðuð eftir bakgrunni má sjá að konur eru mun sáttari við Hringbrautina en karlar. Íbúar á Norðurlandi eru líklegri til að vera sáttir við Hringbrautina en íbúar annarra landshluta og þeir sem eru með lægstu tekjurnar eru hlynntari Hringbrautinni en þeir sem hafa hærri tekjur. Þá má einnig sjá að þeir sem eru almennt fylgjandi því að nýr Landspítali verði reistur yfir höfuð á næstu árum eru líklegri til að vera sáttir við Hringbrautina en aðrir. Einnig er athyglisvert að skoða niðurstöður eftir stjórnmálaskoðunum en kjósendur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eru mun sáttari við Hringbrautina en kjósendur annarra stjórnmálaflokka.

Könnunin fór fram dagana 28. apríl til 8. maí 2015. Hún var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu sem er byggð á Þjóðskrárúrtaki og nær til fólks af báðum kynjum á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu. Svarendur voru 849 og eru gögnin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu í samræmi við hvernig þeir þættir skiptast í Þjóðskrá.

Orðalag spurninganna var eftirfarandi:

Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því að nýr Landspítali verði reistur á næstu árum?

Verði nýr Landspítali reistur, hversu sátt(ur) eða ósátt(ur) ertu við að hann rísi við Hringbraut?

Aðrar fréttir