Á dögunum var Maskína fengin til að kanna hug Íslendinga til, og í kjölfarið útnefna, þjóðardýr Íslendinga. Maskína kannaði hug 5.000 Íslendinga, valda með slembiúrtaki úr Þjóðskrá og þar kom fram að Íslendingar vilja útselinn sem þjóðardýr Íslendinga, enda talinn geðþekkur, harðger og með nokkuð gott skopskyn. Töluvert á eftir útselnum var melrakkinn, en telja má að átak Melrakkaseturs Íslands hafi þar borið nokkurn árangur (sjá http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/08/12/vilja_melrakkann_sem_thjodardyr/). Næstu dýr í röðinni voru sauðkind, hross, fálki og hreindýr. Önnur dýr fengu minni meðbyr.
Þegar svör voru greind eftir bakgrunni svarenda var nokkur breytileiki, en einna áhugaverðast var að greina niðurstöður eftir stjórnmálaafstöðu svarenda. Þar má sjá að mjög stór hluti kjósenda Pírata vill útselinn sem þjóðardýr, en vegna þess hve Píratar mælast með hátt fylgi þessa dagana skýrir það hvers vegna útselurinn fékk flest atkvæði. Þá var fálkinn oftast nefndur meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins, sauðkindin meðal kjósenda Framsóknarflokksins, hreindýr meðal kjósenda Vinstri hreyfingarinnar-Græns framboðs og svo tók hrossið hnossið meðal kjósenda Samfylkingar með einu atkvæði. Óákveðnir nefndu helst áðurnefndan melrakka.
Nú þegar hefur tiltekinn útselur verið fundinn, en hann hefur aðsetur í Húsdýragarðinum og er kallaður Gústi. Nánari niðurstöður, greiningar og umfjöllun um nýja þjóðardýr Íslendinga, útselinn, má sjá hér.