Maskína gerði könnun fyrir Krabbameinsfélag Íslands og fór hún fram á tímabilinu apríl til ágúst 2014. Íslenskar konur, á aldrinum 23-40 ára af öllu landinu tóku þátt. Svarendur voru 460 og voru gögnin vigtuð með tilliti til aldurs og búsetu í samræmi við upplýsingar úr Þjóðskrá.
Milli 57-58% svarenda segjast fara alltaf í leghálsskoðun þegar boð komi en milli 14-15% segjast hafa farið einu sinni eða aldrei.
Þegar svör voru greind eftir bakgrunni má sjá talsverðan mun á svörum eftir aldri kvenna því konur á aldrinum 30-35 ára eru mun líklegri til að fara þegar þær fá boð en t.d. konur á aldrinum 23-25 ára. Þær konur sem hafa meiri menntun og þær sem hafa hærri tekjur eru líklegri til að fara þegar þær fá boð um að koma en þær sem hafa minni menntun og lægri tekjur. Þá eru þær konur sem segjast hafa fengið boðsbréf frá Leitarstöðinni líklegri til að fara þegar þær fá boð en þær sem segjast ekki hafa fengið slíkt boðsbréf á síðustu 36 mánuðum.
Meirihluti kvenna telur leghálsskoðun vera feimnismál
Nálægt 65% kvennanna segja leghálsskoðun vera lítið feimnismál en 13% segja það vera fremur eða mjög mikið feimnismál. Meðaltalið er reiknað á fimm punkta kvarða og er 2,25, þar sem 5 þýðir „Mjög mikið feimnismál“ .
Mikill munur er á svörum eftir aldri kvenna en leghálsskoðun þykir vera meira feimnismál hjá þeim allra yngstu og minnkar svo með aldrinum. Þá eru konur sem hafa lokið háskólaprófi mun líklegri til að telja leghálsskoðun vera lítið feimnismál en þær sem hafa minni menntun.