Nokkur hreyfing hefur verið á fylgi á flokkana á lokametrum kosningabaráttunnar. Maskína hefur mælt fylgi flokkanna vikulega í septembermánuði og eins og sést á meðfylgjandi mynd gefa sumir flokkarnir í á meðan aðrir gefa eftir. Þessi Maskínukönnun sýnir að samtals myndu 9 flokkar fá sæti á Alþingi.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkurinn með 20,6% fylgi, það er talsvert undir kjörfylgi hans í síðustu kosningum en þá hlaut flokkurinn 25,2% og 16 þingmenn. Fylgið samkvæmt Maskínu myndi skila Sjálfstæðisflokknum 15 þingmönnum.
Framsóknarflokkurinn sækir fram og mælist, samkvæmt þessari Maskínukönnun, nú næst stærstur með 13,4% atkvæða. Ef þetta yrðu niðurstöður kosninga fengi Framsóknarflokkurinn 9 þingmenn og myndi því bæta við sig einum frá síðustu kosningum.
Samfylking, Píratar og Viðreisn missa flugið frá fyrri mælingum Maskínu og mælast nú með minna fylgi en síðast. Samfylkingin tapar mest og mælist nú með 11,7% fylgi en var með 14,6% í Maskínukönnun sem birt var 13. september. Viðreisn mælist nú með 11,4% sem er örlítið minna en í síðustu mælingu Maskínu en bætir þó talsvert við sig frá síðustu kosningum þegar flokkurinn hlaut 6,7% atkvæða. Píratar mælast með 11,3% fylgi sem er talsvert minna en í síðustu Maskínukönnun en þó rúmum 2 prósentustigum yfir kjörfylgi þeirra í síðustu alþingiskosningum.
Allir þessir flokkar Samfylking, Viðreisn og Píratar fengju 7 þingmenn miðað við þetta fylgi.
Vinstrihreyfingin grænt framboð sem leiðir núverandi ríkisstjórn mælist með sama fylgi og í síðustu Maskínukönnun eða 11,5% sem myndi skila þeim 7 þingmönnum. Það er talsvert undir kjörfylgi þeirra í síðustu kosningum þegar þau fengu 16,9% atkvæða.
Fylgi Miðflokksins hefur aukist frá síðustu mælingu Maskínu og mælist nú með 7,1% fylgi. Það sama má segja um Flokk fólksins sem er á nokkurri siglingu og mælist með 5,6% fylgi en var með 3,6% í síðustu mælingu Maskínu. Sósalistaflokkurinn mælist nú með 6,6% fylgi sem er örlítið meira en í síðustu mælingu þegar þeir hlutu 6,1%. Yrðu þetta niðurstöður kosninga næðu allir þessir flokkar inn á Alþingi, Sósíalistaflokkurinn og Miðflokkur með 4 þingmenn hvor og Flokkur fólksins með 3 þingmenn. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn mælist með innan við 1% fylgi og næði ekki kjöri miðað við þessa Maskínukönnun.
Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 5.742 talsins. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 15. til 22. september 2021.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.