Stofnanaímynd Maskínu mælir vitund, þekkingu og viðhorf til íslenskra stofnana. Í ár náði mælingin til 40 stofnana og er þetta sjöunda árið í röð sem mælingin er gerð. Niðurstöðurnar gefa því góða mynd af þróun þekkingar og viðhorfs almennings til íslenskra stofnana og nýtast stofnunum m.a. til að meta sýnileika sinn og árangur af ímyndarstarfi.
Niðurstöður ársins í ár liggja nú fyrir. Þjóðkirkjan hefur undanfarin ár verið sú stofnun sem almenningur þekkir hvað best til og var engin breyting þar á í ár. Fast á hæla Þjóðkirkjunnar fylgdi Veðurstofa Íslands og þar á eftir Landspítalinn. Þær stofnanir sem almenningur reyndist hvað jákvæðastur gagnvart voru Landhelgisgæslan, Veðurstofa Íslands og Embætti landlæknis. Þá er áhugavert að sjá hvernig viðhorf til Embættis landlæknis hefur þróast síðastliðin þrjú ár í gegnum Covid-19 heimsfaraldurinn en viðhorf til embættisins mælist nú töluvert jákvæðara heldur en fyrir faraldurinn.
Áhrif nafnabreytingar Barna- og fjölskyldustofu
Afar athyglisvert er að sjá breytingar á mælingum fyrir Barna- og fjölskyldustofu sem tók til starfa þann 1. janúar 2022 og tók við verkefnum Barnaverndarstofu. Eins og við var að búast var þekking á Barna- og fjölskyldustofu lág. Aftur á móti kom á óvart hversu jákvætt viðhorf til stofnunarinnar var og mun jákvæðara heldur en viðhorf til Barnaverndarstofu árið á undan. Ólíkt fyrri mælingum þá mældist Barna- og fjölskyldustofa á lista með þeim 10 stofnunum sem almenningur hafði hvað jákvæðast viðhorf til. Svo virðist því sem nafnabreytingin hafi haft mikil og jákvæð áhrif á ímynd stofnunarinnar.
Hefur þú áhuga á að vita meira?
Niðurstöður rannsóknarinnar liggja nú fyrir og eru fáanlegar á skýrsluformi fyrir eftirfarandi stofnanir:
- Barna- og fjölskyldustofa
- Byggðastofnun
- Embætti landlæknis
- Fangelsismálastofnun
- Ferðamálastofa
- Fiskistofa
- Fjarskiptastofa
- Hæstiréttur Íslands
- Hafrannsóknastofnun
- Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS)
- Jafnréttisstofa
- Landgræðslan
- Landhelgisgæslan
- Landmælingar Íslands
- Landspítali
- Landsréttur
- Lyfjastofnun
- Matís
- Matvælastofnun (Mast)
- Menntamálastofnun
- Menntasjóður námsmanna
- Minjastofnun Íslands
- Náttúrufræðistofnun Íslands
- Neytendastofa
- Persónuvernd
- Ríkissáttasemjari
- Ríkisskattsstjóri
- Samgöngustofa
- Samkeppniseftirlit
- Seðlabanki
- Sjúkratryggingar Íslands
- Skipulagsstofnun
- Skógræktin
- Þjóðkirkjan
- Þjóðminjasafn
- Útlendingastofnun
- Veðurstofa Íslands
- Vegagerðin
- Vinnueftirlitið
- Vinnumálastofnun
Í skýrslunni koma fram tölulegar upplýsingar um vitund, þekkingu og viðhorf til stofnana (greint eftir bakgrunnshópum) og samanburður við heildarmeðaltal allra mældra stofnana.
Nánari upplýsingar veitir Rakel Gyða, rakel@maskina.is eða í síma 690 4942.
Upplýsingar um framkvæmd
Könnunin byggir á þremur mælingum:
- Vitund (reiknuð breyta): Þekkir þú [nafn stofnunar]?
- Þekking (spurning): Hversu vel eða illa þekkir þú til [nafn stofnunar]?
Svarkvarði: Mjög vel – Fremur vel – Í meðallagi – Fremur illa – Mjög illa - Viðhorf (spurning): Hversu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) ertu gagnvart [nafn stofnunar]?
Svarkvarði: Mjög jákvæð(ur) – Fremur jákvæð(ur)– Í meðallagi – Fremur neikvæð(ur) – Mjög neikvæð(ur)
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr Þjóðgátt Maskínu. Þjóðgáttin samanstendur af einstaklingum sem valdir hafa verið með tilviljun úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma.
Safnað var á milli 800 og 900 svörum fyrir hverja stofnun.
Gagnaöflun vegna verkefnisins fór fram í janúar og febrúar 2022.