Um tveir af hverjum þremur Íslendingum hafa miklar áhyggjur af lestrarkunnáttu barna hér á landi samkvæmt könnun Maskínu. Þá hafa aðeins á bilinu 11-12% Íslendinga litlar áhyggjur af lestrarkunnáttunni. Karlar hafa heldur meiri áhyggjur af lestrarkunnáttu barna en konur og eftir því sem fólk er eldra þeim mun meiri áhyggjur hefur það. Langmestar eru áhyggjur meðal þeirra sem eru 60 ára og eldri en á bilinu 80-81% þeirra hafa miklar áhyggjur af lestrarkunnáttu barna.
Ekki er marktækur munur á afstöðu eftir menntun, heimilistekjum eða heimilisgerð.
Spurt var „Hefur þú miklar eða litlar áhyggjur af lestrarkunnáttu barna á Íslandi?“ Svarendur voru 817 talsins og 99,4% þeirra tóku afstöðu til spurningarinnar. Svarendur koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 28. febrúar – 7. mars 2018.