Meirihluta íslendinga finnst að dómsmálaráðherra eigi að segja af sér

Heim / Fréttir / Meirihluta íslendinga finnst að dómsmálaráðherra eigi að segja af sér

Á bilinu 72-73% Íslendinga telja að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra eigi að segja af sér ráðherradómi. Munur er á afstöðu eftir kyni en hærra hlutfall kvenna en karla telur að hún eigi að segja af sér. Einnig er munur á afstöðu eftir aldri, en eftir því sem fólk er eldra þeim mun hlynntara er það að Sigríður sitji áfram sem dómsmálaráðherra.

 

Þá er mikill munur á afstöðu eftir stjórnmálaskoðun en skipta má stjórnmálaflokkunum í þrjá hópa eftir hlutfalli kjósenda sem telja að Sigríður eigi að segja af sér. Nær allir kjósendur Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar telja að Sigríður eigi að segja af sér. Af þessum fjórum flokkum er hlutfallið lægst meðal kjósenda Viðreisnar eða ríflega 89%. Þá telur meirihluti kjósenda Framsóknarflokksins og Flokks fólksins að Sigríður eigi að segja af sér, eða rúmlega 67% kjósenda Framsóknarflokksins og á bilinu 71-72% kjósenda Flokks fólksins. Að lokum finnst meirihluta kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins að Sigríður eigi að sitja áfram sem dómsmálaráðherra, eða slétt 77% kjósenda Sjálfstæðisflokksins og tæplega 56% kjósenda Miðflokksins.

Ekki er marktækur munur á afstöðu eftir búsetu, heimilistekjum, menntun, hjúskaparstöðu eða heimilisgerð.

Spurt var „Finnst þér að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra eigi að segja af sér ráðherradómi eða á hún að sitja áfram sem dómsmálaráðherra?“ Svarendur voru 858 talsins og 88,7% þeirra tóku afstöðu til spurningarinnar. Svarendur koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 15. – 20. febrúar 2018 í samvinnu við Stundina.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir