Laxeldi í sjókvíum við strendur Íslands hefur færst í vöxt á undanförnum árum en einnig hefur borið á laxeldi í lokuðum kvíum á landi. Maskína spurði nú í annað sinn um viðhorf almennings til bæði laxeldis í sjó og á landi. Niðurstöðurnar voru áhugaverðar og sýna að færri eru nú hlynntir báðum gerðum laxeldis en þegar spurt var 2021.
Karlar hlynntir laxeldi á landi en konur
Þeir sem segjast hlynntir laxeldi á landi núna eru rétt um helmingur svarenda, en það eru um 5 prósentustigum færri heldur en sögðust hlynntir slíku eldi á síðasta ári. Mikill munur er á viðhorfi fólks eftir kyni og karlar eru mun hlynntari laxeldi á landi en konur, þannig eru um tveir af hverjum þremur körlum hlynntir því en til samanburðar aðeins um ein af hverjum þremur konum sömu skoðunar. Með hækkandi aldri svarenda eykst stuðningur við laxeldi á landi og þannig eru fæstir hlynntir eldinu í yngsta hópi svarenda.
Stjórnmálaskoðun skiptir máli
Þegar niðurstöðurnar eru rýndar eftir stjórnmálaskoðun kemur í ljós að stuðningur við laxeldi á landi er mestur meðal kjósenda Framsóknarflokksins, Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Meiri andstöðu en að finna meðal kjósenda annarra flokka en mest er andstaðan meðal kjósenda Sósíalistaflokksins.
Færri hlynntir sjókvíaeldi en laxeldi á landi
Talsverður munur kemur fram á viðhorfi annars vegar til laxeldis á landi og hins vegar laxeldis í sjókvíum þar sem mun færri segjast hlynntir eldi í sjó. Það eru rétt innan við 21% sem segjast hlynnt laxeldi í sjó sem er örlítið færri en fyrri mæling frá árinu 2021 sýnir. Á hinn bóginn fækkar einnig þeim sem eru andvígir eða um 5 prósentustig, þannig stækkar hópur þeirra sem eru beggja blands. Fleiri karlar en konur eru hlynntir laxeldi í sjó eða 28-29% karla en mun færri konur eru sömu skoðunar eða 12%. Mestur er stuðningurinn við laxeldi í sjó meðal íbúa á Vesturlandi og Vestfjörðum en þar segjast rúmlega 40% íbúa vera hlynnt slíku eldi. Til samanburðar þá eru innan við 20% Reykvíkinga hlynnt laxeldi í sjó og má því greina talsverður munur er á viðhorfi fólks eftir búsetu.
Ítarlegri niðurstöður má finna hér í pdf-skýrslu.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 914, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 20. til 15. apríl 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.