Lagning Sundabrautar hefur verið til umræðu í samfélaginu um langa hríð. Maskína spurði almenning nýlega um viðhorf gagnvart Sundabraut, burtséð frá því hvort hún verður lögð sem brú eða í göngum.
Meiri stuðningur meðal karla og eldri hópa
Niðustöðurnar sýna að ríflega 66% aðspurðra eru hlynnt lagningu Sundabrautar og aðeins rúmlega 6% andvíg lagningu hennar. Karlar eru hlynntari henni en konur. Greinilegt er að meðal eldri svarenda er stuðningurinn meiri en á meðal þeirra sem eru yngri. Þannig eru um 60% þeirra sem 50 ára og eldri mjög hlynnt langingu Sundabrautar en um 29-37% þeirra sem eru yngri en 40 ára.
Næstum einróma stuðningur meðal íbúa á Vesturlandi og Vestfjörðum
Það þarf engan að undra að stuðningur er mestur við lagningu Sundabrautar meðal íbúa á Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem þessi samgöngubót mun að öllum líkindum skila þeim mestum tímasparnaði í ferðalögum til og frá Reykjavík. Meðal íbúa í þessum landshlutum mælist stuðningurinn tæplega 90%. Fæstir eru hlynntir lagningu Sundabrautar á Suðurlandi og Reykjanesi eða um 55%.
Færri hlynntir meðal kjósenda Samfylkingarinnar og Pírata
Talsverður munur er á skoðun fólks á lagningu Sundabrautar eftir stjórnmálaskoðun. Þar kemur fram að kjósendur Miðflokksins eru afar hlynntir henni, en einnig mælist lagning Sundabrautar býsna vel fyrir meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins. Kjósendur bæði Samfylkingarinnar og Pírata skera sig talsvert frá kjósendum annarra flokka og þar á meðal eru fleiri andvígir framkvæmdinni en meðal kjósenda annarra flokka, þótt meirihluti sé fyrir framkvæmdinni í öllum flokkum. Á bilinu 13-14% kjósenda Samfylkingarinnar eru andvíg lagningu Sundabrautar og rúmlega 10% kjósenda Pírata eru á sama máli.
Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 926, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 7. til 14. febrúar 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.