INNFLYTJENDUR FRÁ MIÐ-AUSTURLÖNDUM SÍÐUR VELKOMNIR EN FRÁ EVRÓPU

Heim / Fréttir / INNFLYTJENDUR FRÁ MIÐ-AUSTURLÖNDUM SÍÐUR VELKOMNIR EN FRÁ EVRÓPU

Í nýlegri könnun Maskínu voru svarendur spurðir um viðhorf til innflytjenda frá ákveðnum svæðum.

Niðurstöðurnar sýna að fleiri en sjö af hverjum tíu eru hlynntir því að innflytjendur frá Vestur- og Norður-Evrópu setjist að á Íslandi. Aðeins 4,5% eru því andvíg. Svarendur yngri en 35 ára eru hlynntari því að innflytjendur frá Vestur- og Norður-Evrópu setjist að á Íslandi en eldri svarendur, íbúar Reykjavíkur eru hlynntari en íbúar á landsbyggðinni, þeim sem eru hlynntir fjölgar með meiri menntun og minni áhyggjum af fjölda innflytjenda. Þá eru kjósendur Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata hlynntari því en kjósendur annarra flokka að innflytjendur frá Vestur- og Norður-Evrópu setjist hér að.

Tæp 43% eru hlynnt því að innflytjendur frá Mið-Austurlöndum setjist hér að en tæplega 34% eru því andvíg. Konur eru hlynntari því að innflytjendur frá Mið-Austurlöndum setjist að á Íslandi en karlar, svarendur yngri en 35 ára eru hlynntari en þeir eldri, þeim sem eru hlynntir fjölgar með meiri menntun og minni áhyggjum af fjölda innflytjenda, einhleypir eru hlynntari en aðrir auk þess sem Reykvíkingar eru hlynntari en íbúar landsbyggðarinnar. Kjósendur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eru hlynntari því en kjósendur annarra flokka að innflytjendur frá Mið-Austurlöndum setjist hér að. Lægsta meðaltalið er meðal kjósenda Framsóknarflokksins (2,32) en hæst meðal kjósenda Vinstri grænna (3,71).

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir