Á bilinu 45-46% Íslendinga vilja óbreytt fyrirkomulag á sölu flugelda. Tæplega 7% vilja banna þá alfarið og tæplega 48% vilja hefta söluna að einhverju leyti.
Karlar vilja fremur hafa óbreytt fyrirkomulag (53,3%) en konur (37,3%). Konur eru hlynntari því að leyfa sölu eingöngu til flugeldasýninga (33,8%) en karlar (22,6%). Fólk á aldursbilinu 40-49 ára er líklegast til þess að vilja óbreytt fyrirkomulag á sölu flugelda.
Reykvíkingar eru ólíklegastir til þess að vilja óbreytt fyrirkomulag, eða á bilinu 35-36%. Þeir eru einnig líklegastir til þess að vilja hefta sölu á flugeldum á einn eða annan hátt. Norðlendingar eru líklegastir til þess að vilja hafa óbreytt fyrirkomulag á sölu flugelda (um 60%).
Töluverður munur er á viðhorfi til sölu flugelda eftir menntun fólks. Þar sést að um 55% þeirra sem hafa ekki lokið háskólaprófi vilja óbreytt fyrirkomulag samanborið við 35-36% þeirra sem hafa lokið háskólaprófi.
Kjósendur Pírata eru líklegastir til þess að vilja banna flugelda alfarið (18-19%) en kjósendur Flokk fólksins ólíklegastir (0%). Þá er töluverður munur á viðhorfi til óbreytts fyrirkomulags. Á bilinu 64-65% þeirra sem myndu kjósa Miðflokkinn vilja óbreytt fyrirkomulag, en á bilinu 31-32% þeirra sem myndu kjósa Viðreisn hafa þá skoðun, svo dæmi sé tekið.
Svarendur voru 817 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 14.-28. desember 2018.