Hamingjusamir Íslendingar

Heim / Fréttir / Hamingjusamir Íslendingar

Meirihluti Íslendinga er hamingjusamur. Slétt 25% eru mjög hamingjusöm (merkja við 9 eða 10 á kvarðanum 0-10) og á bilinu 53-54% eru sæmilega hamingjusöm (7-8). Meðalhamingja Íslendinga er 7,47 á þessum 0-10 kvarða. Hún er aðeins lægri en í lok árs 2018 þegar hún var 7,74. Einnig er hún örlítið lægri en meðalhamingjan var í janúar 2018.

Meðalhamingja Íslendinga hefur lítið breyst á síðastliðnum 4 árum sem Maskína hefur mælt hana. Hún er þó gjarnan dulítið hærri í lok árs en í byrjun þess.

Fólk á aldrinum 60 ára eða eldra er líklegra en aðrir til þess að vera mjög hamingjusamt, eða 9-10 (27,6%). Fólk á aldrinum 18-29 ára er líklegra en aðrir til þess að meta hamingju sína frá 0 til 6 (26,9%). Íslendingar með háskólamenntun eru hamingjusamari en þeir sem lokið hafa grunnskólaprófi eða framhaldsskólaprófi/iðnmenntun.

Hamingja virðist aukast töluvert með hækkandi heimilistekjum. Þeir sem eru með heimilistekjur lægri en 400 þúsund í mánaðartekjur eru líklegri en aðrir til þess að meta hamingju sína frá 0 til 6 (35,9%), en þeir sem hafa heimilistekjur upp á 1.200 þúsund eða hærri eru ólíklegri en aðrir til þess að meta hamingju sína á bilinu 0-6 (10,7%). Þá eru þeir sem eru giftir/kvæntir/í sambúð hamingjusamari en aðrir.

Svarendur voru 1.555 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 11.-24. janúar 2019.

 

 

Skýrsluna í PDF formi má nálgast hér.

Aðrar fréttir