Í hverjum mánuði birtir Maskína fylgi stjórnmálaflokkanna á landsvísu og nú liggja fyrir niðurstöður mælingar sem var í september. Niðurstöðurnar sýna mismiklar breytingar á fylgi flokkanna frá síðustu könnun í ágústmánuði en mesta sveiflan er í fylgi Framsóknarflokksins sem dalar talsvert á milli mánaða.
Framsóknarflokkurinn tekur dýfu
Framsóknarflokkurinn hefur verið á miklu flugi að undanförnu og hefur undanfarna þrjá mánuði, þ.e. í júní, júlí og ágúst, mælst með 18% fylgi eða hærra og fór hæst í tæplega 20% í Maskínukönnun ágústmánaðar. En í þeirri mælingu skildi aðeins um prósentustig að fylgi Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Nú kveður við nýjan tón og samkvæmt tölum Maskínu í september er Framsóknarflokkurinn með 15-16% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist aftur á móti áfram með tæplega 21% fylgi eins og í ágústmánuði og er sem áður stærsti flokkurinn landsins. Fylgi þriðja ríkisstjórnarflokksins, Vinstri grænna, hækkar um rúmlega prósentustig á milli mælinga og er nú hart nær 9%. Þessir þrír flokkar sem sitja nú saman í ríkisstjórn eru því samtals með rétt um 45% fylgi.
Samfylkingin og Viðreisn bæta við sig fylgi
Samfylkingin bætir við sig ríflega tveimur prósentustigum frá Maskínukönnun ágústmánaðar og mælist nú með rúmlega 15% fylgi. Það sama má segja um Viðreisn sem brýtur nú 10% múrinn og er fylgi hennar nú 10-11%. Þetta er í annað sinn á þessu ári sem Viðreisn mælist yfir 10% en annars hefur fylgi þeirra verið um 9%.
Fylgi Sósíalista og Pírata dala lítillega
Fylgi Sósíalista í ágústmánuði var rúmlega 7% og hafði aðeins einu sinni mælst svo hátt, en er nú í september með tæplega 7%, sem er nær engin breyting. Píratar eru nú með rúmlega 12% fylgi, sem er aðeins lægra en í ágúst.
Örlítil aukning á fylgi Miðflokksins og Flokks fólksins
Bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru með um eða yfir 5% fylgi sem er örlítið meira en flokkarnir voru með í síðasta mánuði þegar þeir voru á bilinu 4-5%.
Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.875, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 16. til 27. september 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.