Fleiri Íslendingar eru hlynntir sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum nú en í fyrra, en hlutfallið hefur hækkað um 5-6 prósentustig á milli ára og er nú 37-38%.
Á hinn bóginn eru um 46% Íslendinga andvíg slíkri sölu (bjórs annars vegar og léttvíns hins vegar), en það hlutfall hefur lækkað um 12 prósentustig frá árinu 2017, en á móti kemur bæði hækkun hlutfalls þeirra sem eru hlynntir og hlutfall þeirra sem eru á báðum áttum (eru 16-17% nú, en voru um 10% árið 2017 á báðum tegundum).
Yfirgnæfandi meirihluti almennings er andvígur sölu sterks áfengis í matvöruverslunum eða um 71% svarenda.
Það er athyglisvert að skoðanir á því hvort leyfa eigi sölu bjórs í matvöruverslunum fara mjög með skoðunum á því hvort leyfa eigi sölu léttvíns. Þannig eru um 95% allra svarenda könnunarinnar samstíga í skoðunum sínum á sölu bjórs og léttvíns (hlynnt, andvíg eða þar á milli).
Þetta er í fjórða sinn sem könnunin er framkvæmd og hefur andstaða við sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum ekki verið minni síðan hún var fyrst framkvæmd árið 2014.
Yngsti hópur svarenda, þeir sem eru yngri en 40 ára, er áfram lang hlynntastur sölu áfengis í matvöruverslunum. Viðhorf þeirra sem eru 19-29 ára hefur nokkurn veginn staðið í stað milli ára á meðan eldri hópar eru aðeins hlynntari sölu bjórs og léttvíns í matvörubúðum en í fyrra.
Karlar eru heldur hlynntari sölu áfengis í matvöruverslunum en konur, höfuðborgarbúar eru almennt hlynntari en aðrir og þeir sem eru í sambúð með engin börn eru hlynntari en þeir sem eru á heimili þar sem börn búa og þeir sem búa einir. Þeir sem segjast myndu kjósa Viðreisn eru jafnframt sá kjósendahópur sem hlynntastur er sölu áfengis í matvöruverslunum, á meðan kjósendur Vinstri grænna og Framsóknarflokks eru síst hlynntir.
Svarendur voru 793 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 28. september – 10. október 2018.