Fleiri andvígir en hlynntir sölu áfengis í matvöruverslunum

Heim / Uncategorized @is / Fleiri andvígir en hlynntir sölu áfengis í matvöruverslunum

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu eru fleiri andvígir en hlynntir sölu léttvíns, bjórs og sterks víns í matvöruverslunum. Andstaðan er mun meiri gegn sölu sterks áfengis en léttvíns og bjórs. En um 40% eru hlynnt sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum en um 45% eru andvíg. Á hinn bóginn eru einungis tæplega 16% hlynnt sölu sterks áfengis í matvöruverslunum en 71% er andvígt.

alt

Þá kemur í ljós að rösklega 58% eru ekki hlynnt (þ.e. andvíg eða í meðallagi hlynnt/ andvíg) sölu á neinu áfengi í matvöruverslunum, tæplega 23% eru hlynnt sölu bjórs og léttvíns en tæplega 15% hlynnt sölu á öllu áfengi í matvöruverslunum.

alt

Niðurstöður sýna einnig að karlar eru hlynntari en konur að selja áfengi í matvöruveslunum en þó er hærra hlutfall karla andvígt en hlynnt sölu á áfengi en matvöruverslunum. Hærra hlutfall þeirra sem eru yngri en 35 ára er hlynnt sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum en hinna eldri, en andstaðan er mest í elsta hópnum. Hvort þetta bendi til að fólk verði íhaldssamara í þessu efni með aldrinum eða hvort tíðarandinn er að breytast skal ósagt látið.

Hærra hlutfall kjósenda tveggja stjórnmálaflokka er hlynnt sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum, þ.e. kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Pírata. Mest er andstaðan hjá kjósendum Vinstri grænna en kjósendur Framsóknarflokksins eru ekki langt undan.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu á netinu og fór fram dagana 28. nóvember til 8. desember 2014. Íslendingar af báðum kynjum á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu tóku þátt. Svarendur voru 758 og voru gögnin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu í samræmi við upplýsingar úr Þjóðskrá.

Aðrar fréttir