Í hverjum mánuði mælir Maskína fylgi flokkanna á landsvísu. Það dró til tíðinda þegar Maskína birti fylgistölurnar í síðasta mánuði en þar kom fram að fylgi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins var jafnt. Í samfélagsumræðunni var Kristúnu Frostadóttur, nýjum formanni Samfylkingarinnar, gefinn mestur heiður af þessari miklu fylgisaukningu. Í tölum janúarmánaðar sést að Samfylkingin bætir enn við sig með 23–24% fylgi og er samkvæmt þessari könnun orðin aðeins stærri en Sjálfstæðisflokkurinn.
Tveggja turna tal
Eftir því sem þeim flokkum sem bjóða fram fjölgar dreifist fylgið óhjákvæmilega meira. Hið gamla fjórflokkakerfi sem réð lofum og lögum hér áður fyrr virðist vera liðið undir lok og alls eru 9 flokkar mældir í Maskínukönnunum. Þrátt fyrir þennan fjölda má segja að bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin tróni yfir aðra flokka og nálgast samanlagt fylgi þessara tveggja stærstu flokka helming eða rúmlega 45%. Samfylkingin hefur, samkvæmt þessari könnun, um 2 prósentustiga forskot á Sjálfstæðisflokkinn sem er með hartnær 22%.
Framsókn og Vinstri græn halda sjó
Þrátt fyrir að bæði Framsókn og Vinstri græn séu með mjög sambærilegt fylgi og í Maskínukönnun desembermánaðar eru báðir flokkarnir töluvert undir kjörfylgi í síðustu kosningum. Flokkur forsætisráðherra nýtur nú stuðnings rúmlega 8% kjósenda og Framsóknarflokkurinn um 12%.
Viðreisn upp og Píratar niður
um 9% aðspurðra sögðust kjósa Viðreisn ef gengið yrði til kosninga í dag en það er mjög svipað og flokkurinn hefur mælst með að undanförnu sem hefur verið á bilinu 7–9%. Píratar mælast nú með ríflega 10% sem er nokkru minna en í síðustu Maskínukönnunum.
Miðflokkur og Flokkur fólksins á svipuðum slóðum
Fylgi bæði Miðflokksins og Flokks fólksins er á bilinu 5–6% en það er nokkru minna en báðir flokkarnir mældust með í desember. Það sama má segja um Sósíalistaflokkinn sem er með tæplega 4% fylgi í þessari Maskínukönnun sem er nokkru minna en undanfarið.
Ítarlegra niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 804, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 13. til 18. janúar 2023.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.