Ég væri tilbúin(n) að borða minna af kjöti en meira af grænmeti og kornvöru ef það myndi verða til þess að sveltandi fólk fengi mat.

Heim / Uncategorized @is / Ég væri tilbúin(n) að borða minna af kjöti en meira af grænmeti og kornvöru ef það myndi verða til þess að sveltandi fólk fengi mat.

Þann 9. janúar síðastliðinn var morgunverðarfundur ÍMARK haldinn í Hörpu undir yfirskriftinni ÍMARK spáin 2014-2015. Á fundinum kynnti Þorlákur Karlsson, rannsóknarstjóri Maskínu, niðurstöður rannsóknarinnar „Hvernig hæfa samfélagsgildi Íslendinga breyttum heimi?“ og bar þær saman við niðurstöður hliðstæðrar rannsóknar sem gerð var meðal ungmenna í Bandaríkjunum.

 

Í áðurnefndri rannsókn voru þátttakendur meðal annars spurðir hversu sammála eða ósammála þeir væru eftirfarandi fullyrðingu: Ég væri tilbúin(n) að borða minna af kjöti en meira af grænmeti og kornvöru ef það myndi verða til þess að sveltandi fólk fengi mat. Niðurstöðurnar sýndu að nokkur munur var á svörum íslenskra og bandarískra ungmenna þeim íslensku í hag en þær eru birtar á myndinni hér fyrir neðan. Þar má sjá að 83,6% íslenskra ungmenna segjast vera tilbúin að borða meira af grænmeti og kornvörum á kostnað kjötneyslu ef það getur hjálpað sveltandi fólki samanborið við 61,6% bandarískra ungmenna. Þá vekur athygli að nokkuð hærra hlutfall svarenda á meðal bandarískra ungmenna tekur hlutlausa afstöðu.

 

Konur frekar sammála en karlar

Athyglisverður munur er á svörum kynjanna. Þannig eru konur töluvert líklegri en karlar til breyta matarvenjum sínum á þennan hátt verði það til þess að sveltandi fólk fái mat. Þá vekur athygli að yngsti hópurinn, 16-24 ára, er fremur en aðrir aldurshópar tilbúinn að breyta neyslunni með þessum hætti en fólk á miðjum aldri (45-54 ára) sýnir minnstan vilja til þess.

 

 

Svör bandarísku ungmennanna eru niðurstöður rannsóknarinnar „Monitoring the future“ fyrir árið 2013 en hún er framkvæmd árlega af Institute of Social Research, hjá The University of Michigan. Sjö spurningar voru valdar úr rannsókninni til að leggja fyrir slembiúrtak karla og kvenna úr þjóðskrá á aldrinum 16-75 ára af öllu landinu í desember 2013. Alls voru 727 svarendur.

Aðrar fréttir