Eins og lagt var upp með við myndun ríkisstjórnarinnar skyldi Jón Gunnarsson gegna embætti dómsmálaráðherra í 18 mánuði og að þeim tíma liðnum myndi Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi taka hans sæti í ríkisstjórn. Nú er komið að þeim tímapunkti og því lék Maskínu forvitni á að vita hversu ánægður almenningur væri með störf fráfarandi ráðherra og hvaða væntingar hann hefði til þess sem nú tæki þar sæti.
Þriðjungur ánægður með störf Jóns
Nokkuð skiptar skoðanir eru á störfum Jóns en um þriðjungur aðspurðra sagðist ánægður með þau. Mestrar ánægju gætir meðal kjósenda Miðflokksins en þar á eftir koma kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Hátt í 38% voru á andverðum meiði og segjast óánægð með störf Jóns og eru það helst kjósendur Pírata og Sósíalistaflokksins.
Hófstilltar væntingar til Guðrúnar
Niðurstöðurnar sýna að almenningur hefur fremur hófstilltar væntingar til Guðrúnar Hafsteinsdóttur sem dómsmálaráðherra en um 22% aðspurðra segjast hafa miklar væntingar til hennar en um 42% litlar. Mestar eru væntingarnar meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins.
Litlar skoðanir á hvort er heppilegra sem dómsmálaráðherra
Stærstur hluti aðspurðra sagði að þeim væri alveg sama hvort að Jón eða Guðrún væri dómsmálaráðherra og í raun sýndu niðurstöður sáralítinn mun þar sem 29% sögðust frekar vilja Guðrúnu en 28% vildu heldur sjá Jón halda áfram. Áhugavert var að sjá að kjósendur Sjálfstæðisflokksins fylktu sér frekar að baki Jóni eða um helmingur þeirra og áberandi mikill meirihluti kjósenda Miðflokksins sömuleiðis. Kjósendur Pírata, Sósíalistaflokksins og Viðreisnar vildu fremur sjá Guðrúnu í stóli dómsmálaráðherra en Jón.
Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 966, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 19. til 22. júní 2023.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.