Mánaðarleg fylgismæling Maskínu er nú komin fyrir októbermánuð. Niðurstöðurnar sýna meiri mun á tveimur stærstu flokkunum en verið hefur undanfarið og er nú Samfylkingin 10 prósentustigum stærri en Sjálfstæðisflokkurinn sem er næst stærstur.
Kristrún með Samfylkinguna í sóknarfæri
Fylgisaukning Samfylkingarinnar hefur verið mikil að undanförnu eftir að nýr formaður, Kristrún Frostadóttir, tók þar við stjórnartaumunum. Núna í október er Samfylkingin sem áður stærsti flokkurinn með hart nær 28% fylgi. Það er um 10 prósentustigum meira en Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur tæplega 18% fylgi og er áfram næst stærstur.
Framsókn, Píratar og Viðreisn í kringum 10%
Litlar breytingar hafa orðið á fylgi Framsóknarflokksins að undanförnu og mælist flokkurinn nú með rétt tæplega 10% sem er sambærilegt fylgi Viðreisnar sem er rúmlega 9%. Píratar eru á svipuðu reki og bæði Framsókn og Viðreisn en brjóta þó 10% múrinn og mælast í október með tæplega 11% fylgi
Miðflokkurinn sækir á
Merkja má ákveðinn stíganda í fylgi Miðfokksins samkvæmt Maskínukönnunum undanfarin misseri en flokkurinn er nú með rúmlega 8% fylgi.
Flokkur forsætisráðherra má muna sinn fífil fegurri
Það hefur verið á brattann að sækja hjá VG í könnunum að undanförnu. Flokkurinn mælist nú með um 6% fylgi sem er sambærilegt fylgi Flokks fólksins. Aðeins er einn flokkur sem mælist nú minni en það er Sósíalistaflokkurinn sem er með rúmlega 4% fylgi.
Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.935 sem tóku afstöðu til flokks, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 12. til 18. október og 20. til 24. október 2023.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.