Að liðnum páskum eru landsmenn að jafna sig á sykurvímu sem gjarnan tilheyrir þessum hátíðisdögum. Búðirnar bókstaflega fyllast af mismunandi eggjum í öllum stærðum og gerðum og súkkulaði- og sælgætisframleiðendur keppast við að markaðssetja nýjar og spennandi útgáfur af súkkulaðieggjum. Litur, áferð, bragðgæði og skreytingar leika öll veigamikil hlutverk og úrvalið sem neytendur standa frammi fyrir virðist aukast með hverju árinu. Það var því ekki úr vegi að Maskína legði spurningu fyrir landsmenn um hver framleiddi bestu páskaeggin.
Ótvíræður sigurvegari
Eins og fyrr sagði er fjölbreytni í páskaeggjum mikil og um margt að velja. Niðurstöðurnar sýna þrátt fyrir það að hinn rótgróni súkkulaði- og sælgætisframleiðandi Nói Siríus hefur vinninginn í hugum flestra landsmanna við framleiða bestu eggin. Yfir helmingur svarenda segir bestu eggin frá Nóa Siríus. Aðrir framleiðendur voru nefndir mun sjaldnar en það voru Freyja og Góa sem komu næst á eftir, en 14-16% svarenda taldi þær, hvor um sig, framleiða bestu eggin. Lítill munur er á eggjasmekk fólks eftir mismunandi bakgrunni og þar er til dæmis athyglisvert að smekkurinn er óháður stjórnmálaskoðun, nema helst að Pírötum finnst Omnom-eggin betri en öðrum.
Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.006, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 13. til 19. apríl 2023.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.