Það hefur gefið á bátinn hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að undanförnu og ýmis þung mál komið upp sem ef til vill hafa áhrif á fylgi stjórnarflokkanna. Samkvæmt nýjustu könnun Maskínu um fylgi flokkanna á landsvísu heldur samanlagt fylgi stjórnarflokkanna áfram að dragast saman og hefur ekki mælst minna á kjörtímabilinu. Í upphafi árs var það um 42% en er nú 8 prósentustigum minna eða rétt um 34%.
Samfylkingin áfram stærst
Samfylkingin sem mælist nú með 27% fylgi, líkt og í síðasta mánuði, er áfram stærsti flokkurinn samkvæmt Maskínu. Þetta er því sjötti mánuðurinn í röð sem sú staða er uppi eða síðan í janúar á þessu ári.
Sjálfstæðisflokkurinn undir 20%
Sjálfstæðisflokkurinnmælist nú með 18-19% fylgi en flokkurinn hefur mælst með í kringum 20% fylgi að undanförnu en í þremur síðustu mælingum hefur fylgið ekki náð yfir 20%.
Viðreisn, Píratar og Framsóknarflokkurinn öll í einum hnapp
Fylgi bæði Viðreisnar og Pírata hefur lítið hreyfst að undanförnu samkvæmt Maskínu og eru Píratar nú með rúmlega 11% fylgi en Viðreisn með um 10%. Skammt á hæla þeirra kemur Framsóknarflokkurinn sem hefur dalað nokkuð. Fylgi hans nú er um 9% sem er umtalsvert minna en flokkurinn uppskar í kosningum og var af mörgum talinn sigurvegari þeirra með rúmlega 17% fylgi.
Flokkur forsætisráðherra í kröggum?
Fylgi VG var í algjöru lágmarki í síðustu könnun Maskínu sem sýndi þá að aðeins um 6% kjósenda myndu veita þeim atkvæði sitt. Núna hafa þau rétt lítillega úr kútnum og mælast með 7% fylgi og mega muna sinn fífil fegurri. Það er sambærilegt fylgi Flokks fólksins í þessari júní könnun Maskínu sem hefur hátt í 7% fylgi.
Sósíalistar og Miðflokkurinn minnstir
Þeir flokkar sem hafa minnst fylgi samkvæmt þessari könnun eru Sósíalistar með tæplega 5% fylgi og Miðflokkurinn með rúmlega 6% fylgi.
Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.691, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 1. til 22. júní 2023.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.